Þyrlan reyndi björgun við erfiðar aðstæður

lon.jpg

Útkall þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysstað í Lóni í gærkvöldi reyndi mjög á áhöfn þyrlunnar. Einn maður lést eftir að hafa fallið af hestbaki þegar hann var á leið yfir ána. Fimm ferðafélögum hans þurfti að bjarga úr sjálfheldu af eyri í ánni.

 

Frá þessu er greint á vef Landhelgisgæslunnar. Mikil ókyrrð var á leið TF-Líf, hvasst við Stokksnes og láskýjað og vindur inn jökulsáraurana. Þegar þyrlan kom á svæðið fengust þær upplýsingar að maðurinn væri látinn.

Miklu máli skipti hins vegar að bjarga fimm manns sem voru í sjálfheldu á eyri úti í ánni og sækja þrjá menn sem komnir voru í Múlaskála rétt neðan við eyrina.

„Reyndi þyrluáhöfnin alloft að komast að mönnunum en vegna erfiðra aðstæðna þurfti þyrlan alltaf frá að hverfa þar til lokatilraun bar árangur. Náðist að lenda og sækja fimm menn sem þar voru. Voru þeir fluttir upp á Illakamb þar sem þeir fóru í bíl Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Var síðan flogið að Múlaskála og náðist að taka þrjá menn sem þar voru og selflytja þá upp á Illakamb,“ segir á vefnum.

„Björgunaraðgerðin reyndi mjög á hæfni þyrluáhafnar og fór björgun þeirra sem voru í sjálfheldu giftusamlega þar sem aðstæður voru mjög erfiðar á staðnum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.