Yfir sextíu í sóttkví eystra

Rúmlega sextíu Austfirðingar eru nú komnir í sóttkví út af heimsfaraldri Covid-19 veirunnar. Ekkert smit hefur enn greinst á svæðinu. Brýnt er fyrir íbúum að fylgja þeim ráðleggingum sem gefnar hafa verið út til að hindra útbreiðslu veirunnar.

Hratt hefur fjölgað í hópi þeirra sem eru í sóttkví á Austurlandi. Þeir voru fjórir í fyrradag, fjölgaði svo upp í 22 en eru samkvæmt nýjustu tölum 63.

Tvær ástæður hafa verið gefnar fyrir fjölguninni. Annars vegar bætt skráning á þeim sem eru í sóttkví á svæðinu, hins vegar hertari reglur um hverjir skuli fara í sóttkví en á miðvikudag var ákveðið að allir Íslendingar sem kæmu erlendis frá skyldu fara í sóttkví í tvær vikur.

Í tilkynningu frá almannavarnanefnd Austurlands er bent á hversu mikilvæg ráðstöfun sóttkvíin hafi reynst, en um helmingur nýgreindra smita á landinu koma nú fram hjá þeim sem eru í sóttkví.

Nefndin lýsir ánægju með viðbrögð íbúa við leiðbeiningum vegna veirunnar og þeirra ráðstafana sem stjórnvöld hafa gripið til. Að auki hafi fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök unnið að smíði verklags um sóttvarnir eigin starfsmanna og viðskiptavina. Slíkt skipti miklu máli í þeim áskorunum sem framundan eru.

Á landsvísu hefur bæði smituðum og þeim sem eru í sóttkví fjölgað hratt. Í tilkynningunni er því árétta að nú sé enn mikilvægara en áður að að fylgja leiðbeiningum stjórnvalda í hvívetna og það áréttað. Allar nánari upplýsingar fyrir almenning um hvernig hindra megin útbreiðslu veirunnar má finna á vefnum www.covid.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.