Yfir 1200 manns bólusettir

Alls voru 1253 einstaklingar bólusettir á Austurlandi við Covid-19 veirunni í gær. Bólusetningu í fjórðungnum miðar vel áfram þótt stundum gangi illa að ná til allra þeirra sem eru boðaðir.

„Þetta var stór dagur en gekk vel og stemming í loftinu,“ segir Jónína Óskarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar á heilsugæslusviði Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Bólusett var með efnum frá Janssen, Pfizer/BioNTech og AstraZeneca á Egilsstöðum og Eskifirði.

Áfram verður haldið í næstu viku, þá er von á 1800 skömmum, 400 frá Pfizer og 500 frá AstraZeneca sem flestir fara til þeirra sem eru að fá sína seinni bólusetningu en einnig um 1800 skammtar af Janssen. „Við bjóðum öllum sem ekki hafa fengið bólusetningu upp á að fá Janssen í næstu viku,“ segir Jónína.

Eftir næstu viku ætti að vera búið að bólusetja alla Austfiðringa fædda 2005 og fyrr. Nokkuð hefur hins vegar borið á því að þeir sem boðaðir eru mæta ekki. Í einhverjum tilfellum kann það að skýrast að viðkomandi séu ekki lengur búsettir á landinu. Þess vegna fá alls um 2000 manns boðun í bólusetningu næsta miðvikudag. „Við gætum verið komin með hjarðónæmi á Austurlandi í næstu viku ef allir mæta,“ segir Jónína.

Þeir sem ekki komast á tilsettum tíma eða hafa ekki enn fengið boð eru beðnir um að hafa samband á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. „Það skiptir máli að vita hvort fólk ætli ekki að þiggja bólusetningu upp á nýtingu efnisins og skipulag vinnunnar hjá okkur,“ útskýrir Jónína.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.