Vopnfirðingar með í kaupunum á Grímsstöðum

huang_nubo.jpg
Vopnafjarðarhreppur er eitt þeirra þriggja sveitarfélaga sem staðfest hafa aðild sína að félagi um kaup á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum sem til stendur að leigja kínverska kaupsýslumanninum Huang Nubo. Fljótsdalshérað fylgist með framvindu mála.

Sveitarstjórinn Þorsteinn Steinsson var fulltrúi hreppsins á fundi sem haldin var á föstudag að Heiðarbæ í Reykjahverfi. Gert er ráð fyrir að nokkur sveitarfélög á Norður- og Austurlandi kaupi 72,19% alls lands á jörðinni.

Áður hafði sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps samþykkt að reiða fram 100 þúsund króna stofnframlag ef til þess kæmi að félag yrði stofnað um landakaupin. Eftir því sem Agl.is kemst næst hefur verið einhugur í sveitarstjórn um þátttöku hreppsins.

Til stendur að leigja jörðina kínverska kaupsýslumanninum Huang Nubo sem hyggst þar koma upp ferðamannaþjónustu. Kaup hans á jörðinni voru stöðvuð fyrr í vetur.

Í frétt á vef Akureyri vikublaðs segir að Vopnfirðingar séu eitt þriggja sveitarfélaga sem staðfest hafi þátttöku sína en hin séu Akureyri og Norðurþing. Málin hafi þróast þannig að mun færri sveitarfélög ætli að vera með en lagt var upp með og fulltrúar þeirra hafi gagnrýnt vinnubrögð.

Samkvæmt heimildum Agl.is hafa forsvarsmenn sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs fylgst með þróun mála án þess að óska formlega eftir þátttöku í verkefninu að svo stöddu. Fulltrúi sveitarfélagsins mætti á fundinn á föstudag.

„Grímsstaðir á Fjöllum eru alveg við bæjardyr Fljótsdalshéraðs og uppbygging ferðaþjónustu sem þarna er um rætt hlýtur að fela í sér ákveðin tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila á Fljótsdalshéraði, umferð um Egilsstaðaflugvöll og möguleika á frekari uppbygginu þjónustu,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson í samtali við vikublaðið Austurgluggann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.