Vopnfirðingar búast við ríflega 60 milljóna króna afgangi í ár

vopnafjordur.jpgGert er ráð fyrir ríflega sextíu milljóna króna afgangi hjá Vopnafjarðarhreppi í fjárhagsáætlun ársins. Sveitarfélagið ætlar að halda að sér höndum í fjárfestingum og framkvæmdum.

 

Reiknað er með að tekjur sveitarfélagsins aukist um tæpar 40 milljónir króna og gjöldin um rúmar 20 milljónir. Tekjurnar verði um 470 milljónir og gjöldin 420 milljónir.

„Megin skýring þess að tekjur og gjöld hækka svona milli ára er að hér er áætlað bæði tekju og gjalda megin fyrir yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.“

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða aðalsjóðs verði jákvæð um tæpar 70 milljónir og afgangur af rekstri A-hluta sveitarsjóðs 40 milljónir.

Miklar framkvæmdir hafa verið í Vopnafjarðarhöfn undanfarin ár en þar binda menn vonir við auknar tekjur eftir breytingarnar. Í ár verður að mestu hlé á framkvæmdunum. Áfram verður þó unnið að undirbúningi verkefna í tengslum við olíuleit á Drekasvæðinu. Reiknað er með að um 20 milljóna afgangur verði af hafnarsjóði þótt við það séu settir varnaglar.

„Gert er ráð fyrir allmiklum umsvifum í höfninni til samræmis við áætlanir HB Granda um landaðan afla á árinu 2011, enda þótt talsverðar blikur séu á lofti varðandi veiðiheimildir og nægir þar að nefna sjúkdóm í íslenska síldarstofninum, hugsanlega minni kvóta í makríl og norskíslensku síldinni en á yfirstandandi ári. Jafnframt er ekki ráðgert að kolmunaveiði verði á árinu. Loðnan lofar þó betri hlutum en á síðasta ári.  Í heild er nokkur bjartsýni um góða veiði og vinnslu.“

Vopnfirðingar ætla að halda að sér höndum í framkvæmdum og viðhaldi nema að vatnsveitan verði styrkt. Ekki stendur til að ráðast í „stórfelldar fjárfestingar“ nema hægt verði að selja eignir á móti eða fá styrki. Gert er ráð fyrir sölu eigna fyrir um 30 milljónir króna að markaðsvirði.

Niðurstaðan af öllu þessu ætti að verða jákvæð um 63,5 milljónir króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.