Vopnfirðingar bíða svara um fjárhag hjúkrunarheimila

Vopnafjarðarhreppur er meðal þeirra sveitarfélaga sem bíða eftir niðurstöðu starfshóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins um fjárhag hjúkrunarheimila. Ráðherra á von að skýrsla hópsins berist fljótlega en kveðst vera orðin langeyg eftir henni.

Vopnafjarðarhreppur hefur rekið hjúkrunarheimilið Sundabúð frá árinu 2013 og nemur uppsafnað fjárhagslegt tap sveitarfélagsins á rekstrinum frá þeim tíma um 175 milljónum króna. Hjúkrunarheimilið hefur verið rekið með reikningslegum halla öll árin og veltufé sömuleiðis verið neikvætt.

Sveitarfélagið er þó ekki í hópi þeirra sem sagt hafa upp samningum sínum um rekstur hjúkrunarheimila við ríkið. Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri, segir að erindi hafi verið sent heilbrigðisráðherra í október og í framhaldinu hafi náðst samningar um reksturinn.

Vandræðin eru þó ekki úr sögunni og hefur hreppurinn leitað eftir viðræðum um framtíðina. Saga Vopnfirðingar er svipað og margra annarra sveitarfélaga sem reka hjúkrunarheimili. Daggjöld, sem ríkið greiðir með rekstrinum duga ekki til, meðal annars því ekki tekst alltaf að nýta öll plássin. Þá skerðast greiðslurnar en sveitarfélagið getur ekki brugðist við af sama hraða og lækkað fastan kostnað.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp í ágúst í fyrra til að greina raunkostnað við rekstur hjúkrunarheimilanna. Sá hópur átti að skila af sér í nóvember en ekkert hefur borist frá honum enn.

Í umræðum á Alþingi í síðustu viku, sagðist Svandís eiga von á að skýrslan bærist í þessari viku. Hún væri satt að segja orðin langeyg eftir skilum hópsins en hún bindi miklar vonir við vinnuna. Hún sagði að meðal annars væri verið að skoða skilgreiningu þjónustunnar, svo sem mörg félagsþjónustu sveitarfélaganna og heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir.

Sara segir Vopnfirðinga sömuleiðis vonast til að tillögur starfshópsins berist fljótlega og í framhaldinu verði staða Sundabúðar bætt. „Það er mjög ósanngjarnt að þurfa að borga með þessum rekstri ár eftir ár þar sem þetta er ekki lögbundin þjónusta sveitarfélaga. En auðvitað viljum við að þessi þjónusta sé hér á Vopnafirði.“

Frá undirritun samninga um rekstur Sundabúðar 2013. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.