Vopnafjörður: Sáttatónn sleginn undir lok hitafundar um lífeyrismál

Ásakanir gengu milli talsmanna sveitarstjórnarinnar Vopnafjarðarhrepps og Afls Starfsgreinafélags á íbúafundi sem haldinn var í félagsheimilinu Miklagarði í gær. Efni fundarins var uppgjör vangoldinna iðgjalda sjóðsfélaga sem störfuðu hjá hreppnum á árabilinu 2005-2016. Báðir deiluaðilar létu í það skína að þeir væru tilbúnir að stefna málinu fyrir dóm en sáttatónn var sleginn þegar leið á fundinn.

Sá hluti aðdraganda málsins sem er óumdeildur er að á umræddu tímabili greiddi sveitarfélagið 8% í iðgjald í stað 11,5%. Það uppgötvaðist haustið 2016. Þar skilja leiðir.

Talsmenn launþeganna, með lífeyrissjóðinn í broddi fylkingar, gerðu kröfu um að höfuðstóll hins vangoldna iðgjalds verði greitt að fullu ásamt vöxtum þannig að sjóðsfélagar fái að fullu sín réttindi, líkt og iðgjaldsgreiðslurnar hefðu aldrei klúðrast.

Meirihluti sveitarstjórnar samþykkti á sveitarstjórnarfundi í júní að greiða höfuðstólinn að fullu ásamt vöxtum áranna 2013-16. Meirihlutinn heldur því hins vegar fram að sjóðurinn eigi að bera hluta af skaðanum því hann hafi ekki sinnt eftirliti sínu. Síðan bætast við ýmsir þræðir sem búa til rembingshnút.

Ósammála um aðild Stapa

Þeir sem tala fyrir Stapa segja að þar til fyrir ári hafi forsvarsfólk sveitarfélagsins heitið því að greiða kröfuna að fullu, málið hafi snúist um greiðslufyrirkomulag. Þór Steinarsson sveitarstjóri sagði í framsögu sinni að á fundi í september í fyrra hafi sveitarfélagið boðist til að greiða alla skuldina og taka til þess vaxtalaust en verðtryggt lán hjá sjóðnum til 20 ára. Því hafi starfsmenn Stapa hafnað, meðal annars með þeim orðum að sjóðurinn væri ekki beinn aðili að málinu. Þar með hefði sveitarfélaginu verið gefið sjálfdæmi í málinu.

Þessu hafnaði Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags og stjórnarmaður í Stapa. „Hafi einhver starfsmaður Stapa sagt sjóðinn ekki eiga aðild þá er það bull.“ Þór sagðist ekki hafa hagsmuni af að segja ósatt frá og bað fundargesti um að trúa heilindum sínum.

Ábyrgð sjóðsins þýðir skerðingu fyrir aðra

Þór sagði sveitarfélagið taka ábyrgð á sínum mistökum með samþykktinni frá í júní sem felur í sér greiðslu upp á 46 milljónir króna. Sjóðurinn hafi fallist á hana sem lausn með að samþykkja nýverið að taka við henni.

Hins vegar eigi Stapi að bera hluta ábyrgðarinnar, til að réttindi umræddra félaga skerðist ekki, því sjóðurinn hefði átt að yfirfara skilagreinar sem honum bárust betur. „Lífeyrissjóðir hafa gert alls konar mistök, bæði mannleg og kerfisbundin í fjárfestingum. Það er ekkert nýtt í sögunni,“ sagði Þór.

Sverrir Mar hafnaði því að hægt væri að láta sjóðinn bera ábyrgð. Það yrði aðeins til að skerða réttindi annarra félaga. „Þetta er margendurtekinn misskilningur sem við höfum reynt að bera til baka. Lífeyrissjóður er eins og stórt töflureikisskjal þar sem hver félagi á eina línu. Stapi á andskotann ekki neitt, eina hæð í húsi á Akureyri og nokkrar tölvur. Ef Stapi á að bera ábyrgð þurfum við að skrifa bréf til 30-40 þúsund annarra félaga og tilkynna þeim að við ætlum að styrkja Vopnafjarðarhrepp.

Það er rétt að lífeyrissjóðirnir hafa tapað og hagnast en það er ekki eins og lífeyrissjóðirnir séu peningar sem menn geta gengið í.“ Sverrir neitaði einnig að Stapi hefði tekið uppgjöri hreppsins sem lokalausn heldur til að tryggja réttindi sjóðsfélaga.

Með eða án skatts

Í kynningu Þórs kom fram að alls hafi 378 einstaklingar starfað hjá sveitarfélaginu og greitt í Stapa á umræddu tímabili, þar af séu 230 sem verði fyrir skerðingu lífeyris. Meðalskerðingin sé upp á 2306 krónur á mánuði hjá hverjum þeim sem ekki hafi hafið töku lífeyris. Eftir greiðslu hreppsins fari hún niður í 807 krónur.

Samkvæmt kynningu Þórs nemur skerðingin um 1750 krónum á mánuði hjá tæplega 50 einstaklingum eftir uppgjör sveitarfélagsins. Réttindi rúmlega 50 einstaklinga til viðbótar skerðast um 400 krónur á mánuði.

Í framsögu sinni fór Þór yfir hvernig skattheimta og bakreikningar Tryggingastofnunar vegna uppgjörsins lækka þá tölu enn frekar. Þá skerðast 50 einstaklingar um rúmar 800 krónur á mánuði og næstu 50 um 200 krónur.

Þessir útreikningar hleyptu illu blóði í Sverri sem kallaði þá „meðaltalsbull.“ Ótækt væri að taka skattútreikninga. „Við semjum ekki svona um launin okkar. Menn skulda þessa peninga, hvernig sem þeir æxlast áfram. Þið getið tekið þessar glærur og hent þeim. Þið eigið að borga það sem samið var um í kjarasamningum. Hver er munurinn á að skulda 900 krónur eða 900 þúsund? Hann er enginn ef maður er sæmilega siðferðilega þenkjandi. Maður borgar það.“

Þór sagði sveitarfélagið ekki vilja skerða nein réttindi. Það væri lífeyrissjóðurinn sem gerði það því hann hefði ekki viljað setjast yfir málið með sveitarfélaginu. Sverrir svaraði að sjóðurinn skerti ekki réttindi sem aldrei hefðu orðið til. Þór sagði skattaútreikningana eiga rétt á sér, húsaleiga væri ekki greidd með þeim fjármunum sem skatturinn tæki.

Deilt um vaxtaprósentu

Þór sagði Stapa hafa boðið uppgjör á skuldinni í samræmi við ávöxtunarkröfu sjóðsins og verðtryggt lán til greiðslu lánsins í samræmi við hana sem sé 3,5% raunávöxtun. Raunávöxtun sjóðsins árin 2005-2016 hafi hins vegar verið 3,1%. Heildarkostnaðurinn yrði því um 100 milljónir.

Þór sagði það brattar kröfur að ætla sveitarfélaginu að borga 3,5% þegar raunávöxtunin hefði verið 3,1%. „Þetta er ekki einfalt mál og það felur í sér byrðar upp á 100 milljónir. Það er eðlilegt að stjórnvöld lyppist ekki niður frammi fyrir svoleiðis aðstæðum.“

Sverrir sagði Þór ekki fara rétt með. Þegar lífeyrissjóðskerfinu hefði verið komið á á sjöunda áratug síðustu aldar hefði verið samþykkt að miða framtíðarréttindi við 3,5% ávöxtun. Stapi hafi boðið að greiða miðað við ávöxtunartölu sjóðsins. „Þið borgið það sem gerir ykkar starfsmenn jafnsetta öðrum.“

Í ábendingu sem Þór sendi Austurfrétt í dag kemur fram að hann hafi ranglega sagt í kynningu sinni að Stapi reiknaði höfuðstólinn á 3,5% vöxtum. Slíkur misskilningur hefði komið upp snemma í ferlinu. Hið rétta sé að sjóðurinn miði við 3,5% vexti eins og eðlilegt sé.

Báðir hóta dómsmáli

Þór sagði lagalega óvissu ríkja í málinu. Ábyrgð lífeyrissjóða á innheimti lífeyrisgjalda væri óljós og aldrei hefði reynt á fyrndar lífeyriskröfur fyrir dómstólum. Stapi væri einn um að hafna ábyrgð sinni, enginn annar gerði það. Sveitarfélagið geti gert kröfu um að skorið verði úr um málið.

Sverrir sagði rétt að ekki væru mörg dómafordæmi um að innheimt væru lífeyrisiðgjöld. „Venjulega skulda bara gjaldþrota fyrirtæki þau. Við erum óvön að eltast við opinbera aðila. Mögulega er rétt að við fáum úr þessu skorið, sennilega verður það niðurstaðan,“ sagði hann og bætti við að báðir málsaðilar væru með lögfræðinga í vinnu við að meta stöðuna og líklegt framhald.

Sverir gagnrýndi sveitarfélagið fyrir málatilbúnað þess, það beitti fyrir sig lögfræðingum til að forðast að standa við kjarasamninga eða önnur eldri fyrirheit. „Við vorum fullvissuð um að þetta yrði gert upp. Svo er skriðið á bakvið að sveitarstjóri hafi ekki haft heimild.

Við erum hér í litlu sveitarfélagi en það er látið eins og lögfræðingar séu á bakvið hvern stein. Við biðum þolinmóð í tvö ár í trausti þess að það yrðu allir jafn settir. Svarið er komið og það verða ekki allir jafn settir.“

Þór spurði hvers vegna sjóðurinn hefði samþykkt uppgjörið í sumar og svaraði því til að forsvarsmenn Stapa væru „dauðhræddir við að fá það í andlitið“ að sjóðurinn bæri ábyrgð.

Þótt Þór og Sverrir Mar væru fyrirferðamestir á fundinum voru þeir ekki hinir einu sem tóku til máls. Í fyrstu var opið fyrir þriggja mínútna ræður úr ræðustól og stuttar spurningar úr sal. Þegar Sverrir kom upp í fyrsta sinn til að svara framsöguræðu Þórs var hann rekinn úr ræðustól fyrir að fara fram yfir tímamörkin. Einn fundargestur gekk úr salnum í mótmælaskyni. Fundurinn var nokkuð heitur á köflum og nokkuð um frammíköll. Eftir fyrstu umferð umræðunnar gafst Sverri tækifæri á að klára mál sitt.

Það var Sigríður Dóra Sverrisdóttir, trúnaðarmaður Afls á leikskólanum á Vopnafirði og félagi í Stapa, sem uppgötvaði villuna og lét vita af henni á trúnaðarmannanámskeiði hjá AFLi haustið 2016. Hún hefur síðan farið fyrir þeim sjóðsfélögum sem krefjast þess að hreppurinn bæti skerðinguna til fulls.

„Ég vil að við tölum um greiðslurnar sem vantar sem laun. Þau eru lögbundin en nógu andskoti lág. Við erum lægst launaða starfsfólkið. Það er ekki sómi hreppsnefndarmanna að níðast á lægst launaða fólki landsins, hafið skömm fyrir það!“ sagði hún. Hún gagnrýndi einnig að ekki hefði fyrr verið boðað til fundar með starfsmönnum um málið.

Meirihlutinn ekki við háborðið

Hreppsnefnd var ekki einhuga þegar málið var afgreitt í júní. Minnihlutinn greiddi atkvæði gegn og bókaði vilja sinn til að gera skuldina upp að fullu. Bjartur Aðalbjörnsson, oddviti Samfylkingarinnar, sagði að minnihlutanum hefði verið kynnt um breytta stefnu í málinu fyrr en á vordögum. „Ég hélt við myndum standa saman og taka á okkur þessi mistök,“ sagði hann og skoraði á meirihlutann að taka ákvörðunina til baka og „standa með sínu fólki.“

Sveitarstjórinn og lögfræðingur hreppsins í málinu sátu í háborði með fundarstjóra en fulltrúar í hreppsnefndum úti í sal. Bjartur gagnrýndi meirihlutann fyrir að sitja ekki við háborðið og horfast í augu við fólkið sem þeir væru að skerða um réttindi sín. Þessi orð urðu meðal til þess að Þór sagðist hafa tilfinningu á að hann væri á framboðsfundi, ekki kynningarfundi. Hann dró þau umæli til baka eftir frammíköll úr sal.

Getum ekki klofið samfélagið

Þeir fulltrúar meirihlutans sem tóku til máls sögðust standa við skoðun sína um að lífeyrissjóðurinn þyrfti að taka á sig hluta ábyrgðarinnar. Uppgjörið í júní hefði verið niðurstaða eftir athugun málsins með lögfræðingum og endurskoðendum. Þeir svöruðu gagnrýni um að funda hefði átt um það fyrr með því að sumarleyfi hefðu spilað inn í auk þess sem erfitt hefði verið að kynna málið fyrr en niðurstaða væri komin í það. Á fyrri stigum hefði skort upplýsingar. Bæði Stefán Grímur Rafnsson, oddviti Betra Sigtúns og Sigríður Bragadóttir, oddviti Framsóknarflokksins, þökkuðu bæði Sigríði fyrir að hafa vakið athygli á misbrestinum.

Sigríður lét þess enn fremur getið að henni þætti umræða um málefnið ómálefnaleg sárt væri að fulltrúar meirihlutans væru þjófkenndir. Fleiri lýstu áhyggjum sínum af áhrifum málsins á samfélagið. „Við getum ekki klofið þetta samfélag í herðar niður. Við eigum nógu bágt saman samt. Stoppum núna og leggjum af stað í aðra vegferð þar sem eru aðilar að þessu máli koma saman og finna leið,“ sagði Ólafur Ármannsson.

Bæði Sigríður og síðan Þór sveitarstjóri þökkuðu Ólafi fyrir orð hans og hvatningu til sátta. Þór ætlaði í lokaorðum að ræða aftur aðkomu Stapa. „Það verður að gera það á öðrum forsendum en sjóðurinn hefur lagt upp með. Hvað ætlar sjóðurinn að gera við þessi 0,4%?“ sagði Þór áður en Sverrir Mar gerði athugasemd við fundarstjórn. Sverrir sagði að fyrst búið væri að loka mælendaskrá ætti sveitarstjórinn að nýta lokaorð sín til að þakka gestum fyrir komuna, ekki halda áfram rangfærslum. Björn Halldórsson, fundarstjóri, bað Þór um að taka athugasemdina til greina. „Það er þá best að ég bæti engu við heldur þakki fyrir,“ sagði Þór. Eins og fyrr segir hefur Þór komið á framfæri ábendingu um að í glærukynningu hans hafi rangt farið með vaxtakröfu Stapa, hún væri 3,1% en ekki 3,5%.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.