Orkumálinn 2024

Vond verkefnastaða felldi Barra

barri.jpg
Stjórn skógræktarstöðvarinnar Barra fór fram á að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun vikunnar. Framkvæmdastjóri félagsins segir mikinn samdrátt í skógrækt eftir hrun hafa grafið undan verkefnastöðu fyrirtækisins. Hann vonast að hægt verði að halda verkefnum félagsins á svæðinu.

„Félagið hefur nánast engar tekjur og getur ekki staðið í skilum við lánadrottna sína. Því hefur stjórn félagsins ákveðið að óska eftir gjaldþrotaskiptum á búi félagsins,“ segir í bréfi sem sent var lánadrottnum á mánudag. Daginn eftir var fallist á gjaldþrotaskiptin í héraðsdómi Austurlands og Bjarni Björgvinsson skipaður skiptastjóri.

Barra var veitt greiðslustöðvun í lok nóvember og var þá markmiðið að koma nýrri skipan á fjármál Barra ehf. Í bréfi lögfræðings segir að í desember hafi borist tilboð í lausafé félagsins. „Eftir að hafa aflað verðmats, gert gagntilboð og annað tilboð fengið hefur komið í ljós að ekki er raunhæft að markmið stjórnar félagsins að selja eignir þannig að unnt væri að gera upp við alla lánardrottna félagsins gangi eftir.“
 
Helmingssamdráttur í skógrækt 
 
Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri Barra, segir að verkefnaskortur hafi fyrst og fremst verið það sem felldi félagið. Sérstaklega hafi dregið saman eftir árið 2008.

„Meginmarkmið félagsins var að rækta skógarplöntur. Grunnviðskiptin hafa í gegnum tíðina verið við skógræktarverkefni sem kostuð eru af ríkinu. Í kjölfar hrunsins hefur landsframleiðslan minnkað um nærri 60%.

Við höfum verið með um 40-50% af landsframleiðslu í gegnum tíðina. Við höfum hins vegar ekki náð þeirri hlutdeild í síðustu útboðum því verð hafa lækkað þegar þau ættu í raun að hækka þar sem markaðurinn minnkaði.

Árið 2003 var samþykkt þingsályktunartillaga þar sem átti að auka skógrækt verulega til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftlagsmálum. Ársframleiðslan átti að vera komin í 8-10 milljónir plantna árið 2010. Mest varð hún tæpar sex milljónir árið 2008 og hefur minnkað síðan. Útlit er fyrir að hún verði rúmar þrjár milljónir í ár.“

Barri hf. var stofnaður árið 1990 og var með gróðurhús á Egilsstöðum. Árið 2007 var hins vegar flutt í nýtt húsnæði á Valgerðarstöðum í Fellabæ. Skúli segir að í ljósi fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar hafi stjórnendur Barra farið að skoða möguleika á að stækka við fyrirtækið.

„Við vorum komin með áætlanir um að stækka á gamla staðnum. Við vorum búin að fá vilyrði fyrir kaupum á lóðinni við hliðina og ætluðum að byggja þar upp gróðurhús og frystihús sem hefði verið álíka dýrt og á Valgerðarstöðum. Við fengum hins vegar gott tilboð í gömlu lóðina sem við tókum.“ 
 
Mikilvægt að verja nýsköpunarverkefnin 
 
Til að bregðast við breyttum aðstæðum hafa forráðamenn Barra reynt að afla fyrirtækinu nýrra verkefna. Annað gróðurhúsið á Valgerðarstöðum var tekið undir byggræktun fyrir ORF líftækni en þar hafa ekki náðst langtímasamningar.

Hitt nýsköpunarverkefnið var ræktun á berjaplöntum, til dæmis jarðarberjum. „Það er verkefni sem er að komast af tilraunastigi yfir á framleiðslustig,“ segir Skúli en fyrstu jarðarberjaplönturnar voru seldar síðasta haust. 

„Framtíð þessara verkefna er öll á hendi skiptastjóra en það getur hlotist mikill skaði ef ekki verður gengið hratt frá málum. Ég hef ekki trú á öðru en menn reyni að koma verkefnunum í gang aftur.“

Þegar mest lét voru tólf ársverk hjá Barra, sem einnig hefur verið með starfsemi á Tumastöðum í Fljótshlíð. Starfsmennirnir voru fjórir undir lokin. Í bókun bæjarráðs Fljótsdalshéraðs frá því á miðvikudag segir að mikilvægt sé að unnið verði að því að „tryggja að áframhaldandi starfsemi eigi sér stað á athafnasvæði Barra.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.