Orkumálinn 2024

Vonast til að tímarammi orkugarðs skýrist upp úr áramótum

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar vonast til að áform um grænan orkugarð á Reyðarfirði skýrist upp úr áramótum. Vinna við nánari útfærslur verkefnisins eru komin í gang á grundvelli viljayfirlýsinga sem undirritaðar hafa verið í sumar og haust.

„Vinna við að skoða kosti samstarfs við fyrirtæki sem undirrituðu viljayfirlýsingu um verkefnið í síðasta mánuði hófst í síðustu viku.

Vinna við að þróa kosti við nýtingu heita vatnsins sem fellur til við framleiðsluna er líka hafin,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Fjarðabyggð, Landsvirkjun og danski fjárfestinga- og þróunarfyrirtækið CIP undirrituðu í sumar yfirlýsingu um samstarf um uppbyggingu græns orkugarðs á Reyðarfirði. Aðalmarkmiðið þar er að framleiða vetni með rafgreiningu en við hana fellur til bæði súrefni og varmi sem hugur er að nýta frekar. Fyrirtækin Síldarvinnsla, Laxar og Atmonia bættust í samstarfshópinn fyrir mánuði.

Talsfólk verkefnisins hefur til þessa lítið vilja gefa upp um nákvæmlega hvert umfang verkefnisins kann, aðeins að það þurfi að meta nánar, meðal annars með tilliti til stærð lóðar.

Jón Björn segir viðræður í gangi um stærð og staðsetningu lóðar. „Þetta er allt á góðum vinnsluhraða. Stærðarhlutföll lóða gætu skýrst fljótlega.

Tímaramma verkefnisins gætum við séð teiknast upp eftir áramót. Það er þó háð leyfisveitingum, það getur verið erfitt að sjá fyrir hve langan tíma þær taka.“

Fulltrúar þeirra aðila sem undirritað hafa viljayfirlýsingar um græna orkugarðinn. Mynd: Landsvirkjun


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.