Orkumálinn 2024

Vonast til að Breiðablik rísi á ný 2022

Cordula Schrand vonast til að geta endurbyggt húsið Breiðablik, sem eyðilagðist í aurskriðu á Seyðisfirði að morgni föstudagsins 18. desember, á ný á lóð skammt frá þeirri sem húsið stóð áður á. Hún segist hafa verið nærri því að leggja árar í bát skömmu eftir aurflóðin.

„Mér finnst húsið tilheyra bænum og fólkinu. Ef ég er ekki að þessu fyrir mig þá er það fyrir son minn. Við töluðum saman um jólin. Hann sagði mér að ég hefði kennt sér að gefast aldrei upp en nú væri ég að gefast upp. Hann hafði rétt fyrir sér, ég hef barist fyrir þessu húsi,“ segir Cordula sem átt hefur Breiðablik frá árinu 2007.

Tæplega aldarlöng verslunarsaga

Húsið sem áður stóð að Austurvegi 38 og bar nafnið Breiðablik, átti sér langa sögu. Það var smíðað árið 1902 og í fyrstu notað fyrir góðtemplarastúkuna Aldarhvöt sem hafði aðsetur í útendanum. Vegna þess var það lengi þekkt sem „Góðtemplarahúsið.“

Í Húsasögu Seyðisfjarðar, sem kom út í uppfærðri útgáfu síðasta sumar, er húsið sagt hafa verið í raun tvær húseignir „eins konar óreglulegt parhús.“ Pjetur Jóhannesson, bókbindari, bjó einnig í húsinu. Hann eignaðist það alveg árið 1918 gaf því nafnið Breiðablik.

Aldarhvöt flutti úr húsinu árið 1907 og hófst þá verslunarrekstur þar sem stúkan hafði áður starfað. Þar var verslað með ýmsar vöru fram til ársins 1997. Lengst af var meginhluti hússins í eigu Filippusar Sigurðssonar frá Dvergasteini sem átti húsið og rak þar verslun frá 1952-97.

Úr þýskri sumarsól í Austfjarðaþokuna

Ári síðar keypti Þjóðverjinn Hans Mosel húsið af Filippusi. Hans var farandsmiður, tilheyrði félagsskapnum Rolandschact en meðlimir hans ferðast um heiminn í einkennisbúningum úr svörtu flaueli. Með honum og Cordulu tókust kynni.

„Það má segja að samband mitt við Breiðablik sé eins konar ævintýri. Ég varð ástfanginn af farandsmið sem kom við í heimaborg minni, Hamborg í Þýskalandi, til að kaupa sér verkfæri þar sem ég var að vinna. Mér fannst hann skrýtinn en við fórum að tala saman og hlægja. Það sumar fór hann til Íslands, þar sem hann hafði verið áður og kunnað vel við sig í svalanum.

Hann hringdi í mig um sumarið og bauð mér að koma. Ég var þá heima í garðinum mínum, undir eplatré í sólinni og fannst hugmyndin um að fara úr þeirri sælu til Íslands fáránleg. Hann hafði keypt Breiðablik sumarið áður og vildi fá mig. Að lokum sló ég til.

Ég man vel þegar ég kom fyrst til Seyðisfjarðar. Við keyrðum niður Fjarðarheiðina í svartaþoku og sáum bæinn ekki fyrr en við vorum komin inn í hann. Þegar við stoppuðum loks fyrir framan Breiðablik stytti upp og það var sem eitthvað lysti mig. Mér fannst ég vera á réttum stað á réttum tíma og ég sagði strax að við myndum endurbyggja húsið saman.

Árið eftir komum við aftur með annan ferðasmið með okkur. Við bjuggum í Vinaminni, við vöknuðum þar á morgnana, héldum yfir í Breiðablik til að vinna og vorum þangað til ellefu um kvöldið að við fórum til baka, útkeyrð, til að elda okkur kvöldmat. Við borðuðum ógrynni af spaghettí þetta sumar.

Við rifum vegg fyrir vegg niður og endurbyggðum. Það var búið að vera þurrt í þrjár vikur þegar loks rigndi og þá komumst við að því að þakið læki þannig við þurftum að skipta um það líka. Þegar við fórum var húsið svo að segja nýtt.“

Að þessu sinni liðu fimm ár þar til Cordula snéri aftur til Seyðisfjarðar. Þá var 2,5 ára gamall sonur hennar og Hans með henni og mágkona. „Við tæmdum húsið, það var fullt af drasli því ýmsa vantaði geymslupláss en enginn borgaði leigu.“

Loks tilbúið þegar ósköpin dundu yfir

En það leið ekki aftur svo langur tími milli ferða. Á hverju ári kom Cordula aftur til að dytta að húsinu. Í Húsasögunni segir að allt innandyra hafi verið „unnið af miklu listfengi.“ Þá er tíundaðar ýmsar breytingar svo sem að nær allt burðarvirkið hafi verið endurnýjað og nýr kjallari verið steyptur.

„Síðasta sumar hugsaði ég með mér að loks væri húsið tilbúið. Ég átti bara eftir síðasta baðherbergið og ætlaði að græja það í sumar til að geta haldið upp á sextugsafmælið mitt í águst. Ég var búinn að bjóða vinum mínum og einhverjir þeirra höfðu bókað flug.“

En þá greip náttúran í taumana. Húsið lenti í fyrstu skriðunni sem féll á Seyðisfjörð, seinni part þriðjudagsins 15. desember. „Það gerðist daginn fyrir 85 ára afmæli móður minnar. Ég var búinn að skipuleggja afmælishóf fyrir hana eftir öllum Covid-reglum. Þegar við vorum að vaska upp eftir matinn sagði ég henni að ég hefði fengið símtal frá Íslandi og þyrfti að fara þangað undir eins. Ég pakkaði niður í tösku, keyrði til Kaupmannahafnar og tók næsta flug til Íslands. Ég lenti hér að kvöldi 17. desember en vegna Covid-reglna náði ég ekki kvöldfluginu austur.“

En hún var vakin að morgni næsta dags við enn verri tíðindi. Um nóttina hafði fallið önnur skriða á húsið, borið það um 50 metra leið yfir Austurveginn og snúið því hálfhring uns það staðnæmdist við hlið bensínstöðvarinnar. „Ég fékk símtal og mér sagt að það væri ekki nóg með að kjallarinn væri fullur heldur hefði húsið færst af undirstöðunum. Ég brast í grát og hringdi í son minn sem hafði aldrei áður heyrt mig gráta. Síðan hringdi ég í vini mína og sagði þeim að við þyrftum að finna annan stað fyrir afmælið.“

Cordula kom austur með morgunfluginu og fór rakleitt í sóttkví í íbúð á Seyðisfirði. „Ég sá Breiðablik í slyddunni. Ég hljóp út á túnið fyrir neðan og komst að því að það væri á floti því ég rennblotnaði í fæturna, tók mynd, fór aftur inn í bílinn og keyrði í íbúðina.“

Þangað komu meðal annars fréttamenn til að ræða við hana, enda athyglin framan af deginum öll á Breiðablik. Svo féll stóra skriðan. „Rafmagnið fór og ég heyrði hvað hafði gerst. Þetta var sérstakt því ég mátti ekki fara út og gat því ekki hjálpað til.“

Gat bjargað miklu

Cordula kveðst hafa haldið í vonina um að geta bjargað Breiðablik fyrst á eftir. „Ég hélt þetta væri enn heilt hús og hugsaði með mér að ég réði við þetta. Svo hringdi vinur minn og sagði mér að ég hefði ekki séð hliðina sem snéri upp í fjall. Hann sendi mér mynd og þegar ég sá hana gerði ég mér grein fyrir að ég hefði tapað öllu. Og þegar ég hélt að ástandið gæti ekki orðið verra kom í ljós að ég væri ótryggð og myndi ekki fá neinar bætur.“

Með þessi tíðindi hélt Cordula jólin í sumarbústað á Einarsstöðum á Fljótsdalshéraði. „Við horfðum á íslenskt sjónvarp og norðurljósin um jólin. Það var yndislegt og ég er þakklát hverjum þeim sem lét okkur hafa bústaðinn. En þetta var erfiður tími, að vera þarna og geta ekkert gert. Ég var laus úr sóttkvínni en ástandið var enn svo ótryggt að ég mátti ekki vinna í húsinu.

Ég hefði getað bjargað einhverju á þessum tíma en svo kom frost og þá var það of seint. Björgunarsveitin kom eftir jólin og tók það sem hægt var að bjarga úr húsinu. Við náðum þó nokkru af munum, því helsta úr ævilangri söfnun minni. Ég átti til dæmis gripi frá langalangafa- og ömmu sem bjuggu í Brasilíu. Ég hefði skammast mín fyrir að hafa flutt þá hingað til þess að glata þeim. Síðan var í húsinu húsgögn frá langafa mínum og ýmsir listmunir.

Margir þessara muna voru drullugir þannig ég varði mörgum dögum og kvöldum í litlum upphituðum kofa hér við að hreinsa þá og setja í gám. Við náðum líka að bjarga stiga sem ég gerði úr tré sem óx í garðinum mínum í Þýskalandi. Þegar ég tók þakið í sundur fann ég tvær spýtur sem ég tel að hafi verið í húsinu alla tíð. Ég er ánægð með hversu miklu tókst að bjarga.“

Erfitt að sjá húsið flutt

Segja má að Cordula hafi staðið sérhverja stund frá jólum fram í miðjan febrúar í að taka niður Breiðablik. „Ég var ýmist að þrífa muni eða rífa húsið. Ég skrúfaði þessar skrúfur í á sínum tíma og nú skrúfaði ég þær úr. Það var undarleg tilfinning og ég tók myndir af ferlinu.“

Fimmtudaginn 4. febrúar var húsið fært á hafnarsvæðið þar sem Cordula varði næstu vikunni við að ganga frá því. Föstudaginn 5. febrúar voru síðustu minjarnar á lóð bensínstöðvarinnar fjarlægðar. „Það var sérstakt að hafa húsið það en það stakk mig þegar því var lyft upp á bíl og flutt. Það voru viss endalok.“

Mikilvægt fyrir sögu bæjarins að halda húsinu

Það var síðan eftir hátíðarnar sem birta tók á ný hjá Cordulu. „Mér leið verst eftir að hafa fengið skilaboðin um að ég væri ótryggð en hefur liðið betur eftir að umræðan um að endurbyggja það fór af stað. Við ræddum við þá sem réðu tryggingunum og úr varð að að við skrifuðum samantekt um hvað ég hefði gert fyrir húsið og mikilvægi þess að viðhalda sögu þess.

Svo hringdi Hans. Við skildum árið 2005 og síðan hefur hann ekki komið til Íslands en hann sagðist ætla að vera með, það væri rétt að við gerðum þetta saman.“

Cordula segir það mikilvægt fyrir sögu Seyðisfjarðar að Breiðablik rísi á ný. „Fólkið sem vottar mér samúð sína vegna hússins segir mér líka sögur af því þegar það keypti nammi þar af Filippusi. Fyrir nokkrum árum hringdi líka í mig kona af spítalanum þegar hún lá þar banaleguna. Hún hafði búið í húsinu og hafði heyrt hvað ég hefði gert vel við húsið. Út af þessu finnst mér nauðsynlegt að skila því aftur til samfélagsins.“

Breiðablik 2.0

En Breiðablik verður öðruvísi þótt það rísi aftur. „Ég er komin með augastað á lóð skammt frá, niður undir Leirunni. Ég vona að ég fái hana. Ég ætla ekki að vera hér næstu 15 árin við að koma húsinu upp smám saman, ég reikna með að smíða það í Þýskalandi og flytja það svo með skipi, rétt eins og gert var þegar það kom upphaflega frá Noregi. Ég ætla heldur ekki að hafa kjallara, en að öðru leyti reikna ég með að það muni líta svipað út. Ég ætla að halda litunum, ljósbláum útveggjum og rauðu þaki.

Ef ég fæ lóðina fljótt þá verður hægt að taka grunninn í sumar. Mig langar að setja húsið upp 2022, mér finnst það góð tímaáætlun. Ég hlakka til að sjá það rísa á ný.“

Hún segir óráðið hvort hún muni flytja til Seyðisfjarðar eða hvernig hið endurreista Breiðablik verði nýtt. „Húsið átti að vera trygging mín í ellinni og þess vegna varð áfallið enn meira. Ég held að þetta geti orðið staður þar sem hægt er að kaupa þýskt bakkelsi eða fyrir listamenn til að vinna, til dæmis son minn. Ef ég flyt þá vil ég hafa þar verkstæði. Ég ætla að halda í miðjuþakið, kannski set ég það á skúr við hliðina og nota sem vinnuaðstöðu.“

Og það er líka búið að finna stað fyrir sextugsafmælið. „Það verður í Brittaníu í Frakklandi. Vinir mínir þar voru að ljúka við að útbúa gestaherbergi og buðu það fram.“

Seydisfjordur Skrida 20201218 0001 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0003 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0006 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0011 Web
Sfk Skrida 20201216 0015 Snyrt Web
Sfk Skrida 20201216 0029 Snyrt Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.