Vonast eftir að fá verslun fyrir vorið

Íbúar og velunnarar á Borgarfirði eystra telja algjört forgangsatriði að koma dagvöruverslun í þorpinu sem fyrst á laggirnar á ný. Húsnæðis- og samgöngumál eru þeim einnig ofarlega í huga.


Þetta voru forgangsmál íbúaþings sem haldið var á Borgarfirði um helgina en með því hófst þátttaka staðarins í verkefni Byggðastofnunar, Brothættum byggðum. Eins og nafnið ber með sér er verkefnið sérstaklega miðað að því að hjálpa viðkvæmum byggðum sem glíma við fækkun, eru með einhæft atvinnulíf og eiga langt að sækja stuðning.

Yfir fimmtíu manns tóku þátt í þinginu um helgina, bæði heimafólk en einnig eigendur sumarhúsa á staðnum sem ganga undir nafninu „fjarbúar.“ Sigurborg Kr. Hannesdóttir frá Ildi leiddi vinnuna.

„Mér fannst þetta gríðarlega vel heppnað í alla staði. Mætingin var frábær og mikil breiddi í hópnum bæði í aldri og búsetu,“ segir Sigurborg.

„Mér fannst endurspeglast gríðarleg tryggð og væntumþykja við byggðina. Fólk var tiltölulega sammála um hvað skipti mestu máli. Það var farið vítt yfir sviðið í málefnum sem varða samfélagið og mikill efniviður varð til fyrir framhaldið.“

Verslun í forgang

Í lok þingsins á sunnudag fengu þátttakendur stig sem þeir gátu notað til að forgangsraða þeim umræðuefnum eða hugmyndum sem komu út úr þinginu. Verslunarmál fengu langmest atkvæði en búðinni á staðnum var lokað síðasta haust.

Þar var meðal annars rætt um hentugt húsnæði fyrir nýja verslun, að íbúar stæðu saman um að stunda viðskipti við hana og tryggja þannig grundvöll hennar, hvort rétt væri að Borgarfjarðarhreppur hefði aðkomu að henni og hvort áhugi væri hjá Samkaupum að koma aftur að rekstri þar, en fyrirtækið rak búðina fram á haustið 2014. Áhersla var lögð á að verslun yrði komin í gang fyrir vorið.

Nokkur umræða var um heilbrigðisþjónustu en hjúkrunarfræðingur hefur ekki verið til staðar á Borgarfirði undanfarin tvö ár. Bentu fundargestir á að ekki væri boðlegt að hjúkrunarfræðingur sækti staðinn tvisvar í mánuði ef fært væri.

Biðja um göng til að fá bundið slitlag

Samgöngumál hafa einnig verið framarlega hjá Borgfirðingum sem ítrekað hafa bent á að staðurinn sé eina þéttbýlið á landinu sem ekki vegtengingu með bundnu slitlagi. Þinggestir ræddu til dæmis hvort rétt væri að krefjast þess að fá göng til að vegurinn yrði að minnsta kosti lagaður.

Vegurinn út í Höfn var einnig ræddur. Hann er einbreiður með bundnu slitlagi en um hann fara tugþúsundir vegfarenda á ári þar sem ferðamenn fara á staðinn til að skoða lunda auk þess sem fiskibátar staðarins landa þar. Til umræðu er að hluti þeirra landi á ný við gömlu höfnina við Bakkagerði vegna þeirrar hættu sem skapast í umferðinni.

Eins var komið inn á fjarskiptamál en ekkert GSM samband er í Njarðvík, á Vatnsskarði né á miðunum úti fyrir firðinum.

Kallað var eftir greiningu á húsnæðismálum en leiguhúsnæði skortir fyrir áhugasama íbúa. Þessu tengt var rædd hugmyndin um að byggja Borgarfjörð upp sem vistþorp.

Hugmyndirnar sem komu fram um helgina verða teknar saman og afhentar verkefnisstjórn.

Hver er forgangsröðin?
(verkefni og fjöldi stiga)

Verslun og þjónusta 80
Húsnæðismál 54
Samgöngur og fjarskipti 52
grunnskólinn 27
Heilbrigðisþjónusta 27
Fiskveiðar og vinnsla og framtíð landbúnaðar 38
Nýsköpun - heilsársstörf 33
Ásýnd, umhverfi, markaðssetning og umfjöllum 19
Vistþorp 17
Afþreying, ferðaþjónusta og handverk 16
Fyrirmyndarsamfélag 12
Borgarfjörður Escape 9
Sjálfbærni 7
Sögur 6
Lýðháskóli 6
Íslenskukennsla og efling erlendra íbúa 6
Félagsstarf 5
Sumarhús og fjarbúafélagið 5
Heilsustofnun 4
Styrkleikar 4
Tónlistarþorpið 4
Söfn 3

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar