Von á hvössum suðvestanvindi í kvöld

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörum fyrir Austurland og Austfirði seinni partinn í dag og kvöld. Von er á hvössum suðvestanvindi sem trúlega hefur mest áhrif á norðanverðu svæðinu og Fljótsdalshéraði.

Gert er ráð fyrir að hvessa taki upp úr klukkan sex í dag, fyrst inn til landsins og á annesjum en síðan víðar á svæðinu upp úr kvöldmat. Reiknað er með að vindhviður fyrir fjöll geti farið í 35 m/s.

Daníel Þorláksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að líklega verði skjól fyrir vindinum á Austfjörðum, þó sé líklegast að áttin geti náð sér niður í Seyðisfjörð og Norðfjörð. Mjög byljótt verði í þeim fjörðum þar sem vindurinn nær sér niður.

Akstursskilyrði gætu orðið varleg í kvöld en flughált er víða á austfirskum vegum, einkum á Héraði.

Vindinn tekur að lægja um miðnætti í kvöld, síðast nyrst á svæðinu. Þar frystir líka fyrst, sem aftur getur skapað varleg akstursskilyrði nái vegirnir ekki að þorna áður. Inn á Fljótsdalshéraði frystir ekki fyrr en annað kvöld.

Samhliða hvassviðrinu styttir upp, en nokkuð hefur rignt eystra í dag. Úrkoman þennan sólarhringinn er komin í 55 mm í Neskaupstað og 48 mm á Dalatanga. Vindurinn er hins vegar hlýr, 4-5 gráður og því áframhaldandi hláka. Almannavarnir hafa beint þeim tilmælum til íbúa að hreinsa frá niðurföllum og festa lausamuni fyrir kvöldið.

Aurspýjur hafa fallið í Eskifirði í hlákunni þar í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hafa þær ekki haft áhrif á umferð yfir Hólmaháls. Grjót hrundi á veginn um Hvalnesskriður síðustu nótt en hann var hreinsaður í morgun. Enn er þó varað við hrunhættu þar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.