Völva Agl.is: Hvar hafði hún rétt fyrir sér

volvumynd_web.jpgFyrsti hluti spár völvu Agl.is birtist á morgun. Því er rétt að rifja upp það sem rættist í spádómi völvunnar í fyrra.

 

Einfaldast er að byrja á spádómnum um Icesave þar sem völvan hitti naglann á höfuðið. „Þjóðin mun hafna því aftur að greiða Icesave, það munu verða læti út af því en Völvan heldur að dómstóll muni taka af skarið um hverjir beri ábyrgð og þurfi að greiða. „Það verður ekki íslenska þjóðin“.“

Völvan virðist hafa séð fyrir mikil átök innan Evrópusambandsins. „Evrópusambandið virðist tryggja þjóðum sínum eilíf vandræði, allt sýnist þar upp urið. Þjóðverjar vilja þaðan út, en kjarnorkuver þeirra þvinga þá til hlýðni.“ Evrusvæðið hefur skolfið eins og hrísla allt árið og Þjóðverjar farið fremstir í flokki við að bjarga því sem bjargað verður.

Völvan sá líka átök í íslenskum stjórnmálum. Hún nefndi reiði vegna kostnaðar við aðildarviðræður Evrópusambandið og áköll um utanþingsstjórn. Völvan benti sérstaklega á þá Ólaf Ragnar Grímsson og Jón Bjarnason, sem mikið hafa verið í fréttum á árinu. Hún sagði Ólaf Ragnar einu von íslensku þjóðarinnar um áframhaldandi sjálfstætt eigið ríki.

Um Jón sagði hún: „Jón Bjarnason berst hetjulega fyrir frelsi Íslands og landsbyggðarinnar sem framleiðir mat og verðmæti úr ull og skinnum. Það verður fast að honum sótt fyrir að reyna að stuðla að velferð þjóðarinnar. Það passar ekki við áformin um Evrópusambandið. Fréttaflutningur bregst í þessu efni svo þjóðin skilur ekki nógu vel að frelsi og velferð íslands er í húfi.“ Jón hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ýmis verk sín á árinu og var um áramótin skipt út úr ríkisstjórninni.

Völvan spáði ekki miklum árangri hjá stjórnlagaþinginu. Undan því var grafið í byrjun árs þegar kosningin til þess var ógild og tillögur þess eru til meðferðar hjá Alþingi.

Völvan spáði fyrir um eldgos sem hún sagði að kæmi á óvart. Eldurinn kom upp úr Eyjafjallajökli í lok maí.

„Jöklaferðir reynast mannskæðar og óhugur verður í fólki vegna slysfara. Mikil leit verður gerð að týndu fólki sem ekki tekst að finna,“ skrifaði völvan. Í lok nóvember var ákaft leitað að sænskum ferðamanni sem fannst látinn í sprungu í Sólheimajökli.

Völvan hafði rétt fyrir sér um stærstu lögreglumál ársins. Hún spáði því að upplýst yrði um stórfellt fíkniefnasmygl sem tengdist flutningum á sjó. Töluvert magn var gert upptækt í Straumsvík í haust. Þá benti hún á að erlend glæpagengi myndu láta til sín taka í Reykjavík og Suðurnesjum en mótorhjól yrðu þar áberandi. Mikil umræða hefur verið um landnám Útlaga og Vítisengla á árinu og í haust rændi pólskt þjófatríó úraverslun Frank Michelsen.

Það var fleira sem Völvan sá, eða kannski sá ekki, á Reykjanesinu. Hún sá enga stóriðju, enda hefur hún ekki birst. Líklegra taldi hún að vandamál svæðisins yrðu leyst með fyrirtæki sem tengdist náttúruvísindum en ORF líftækni hefur komið sér fyrir í Grindavík. Völvan benti líka á skuldamál Reykjanesbæjar sem töluvert voru til umræðu í vor.

Völvan setti líka spurningamerki um átök um kristnikennslu í grunnskólum en um hana hefur sérstaklega verið barist á höfuðborgarsvæðinu. „Það hefur margt verið reynt til að afþjóða íslendinga, reynt að gera hér fjölþjóðasamfélag, aðskilja ríki og kirkju. Hnattvæðingin var talin nauðsynleg. Skólarnir áttu að sleppa kristnum fræðum, íslenskukunnáttan vanrækt en enska og önnur tungumál í fyrirrúmi. Skólar ala upp börnin, foreldrar uppteknir við annað. Hvenær eigum við að verða íslendingar aftur? Í gamla daga þótti ekki sómi að undanvillingum, þeir þóttu ringlaðir og ljótir í hárbragði.“

Völvan spáði líka rétt fyrir um atvinnumál á Austurlandi. „Vopnfirðingar hafa haldið vel á sínum málum en á Norðausturlandi hefur eyðingastefna sett mark á hlutina, hrópað er á stóriðju af ráðamönnum.“ HB Grandi hefur byggt veglega upp á Vopnafirði og íbúar þar fögnuðu nýrri vegtengingu á árinu. Í Þingeyjasýslunum virðist allt sitja fast, Alcoa hætti við álver á Bakka og Grímsstaðaskáldið Huang Nubo fékk ekki að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Völvan spáði einnig fyrir um opnun söguseturs á Eiðum en stofa tileinkum gamla Alþýðuskólanum var opnuð í júlí.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.