Virkt umferðareftirlit komi í veg fyrir alvarleg slys

Lögreglan á Austurlandi hefur tekið töluvert af ökumönnum fyrir of hraðan akstur það sem af er sumri. Hraðast er ekið á Háreksstaðaleið. Yfirlögregluþjónn segir markmið sýnilegs umferðareftirlit að koma í veg fyrir alvarleg slys.

„Við teljum það frumskyldu okkar að gæta öryggis almennings og í umferðinni gerum við það með að vera sýnileg á vegunum. Markmiðið er að koma í veg fyrir alvarleg slys,“ segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Hann segir að mikið hafi verið um hraðakstur og umferðarlagabrot í umdæminu það sem af er sumri. Algengast að ökumenn séu gripnir á um 110 km/klst hraða en þú hafi ökumenn mælst á frá 140-160 km hraða.

Hraðast er ekið á Háreksstaðaleið og hefur lögreglan þar verið vel sýnileg í sumar. „Það hefur verið settur aukinn þungi í að vakta það svæði og þannig verður áfram. Lögreglan á Vopnafirði hefur staðið sig mjög vel í að vera þar á ferðinni.“

Einnig er nokkuð greitt ekið um Fagradal og Heiðarenda. Hraðinn minnkar hins vegar þegar sunnar í umdæmið kemur í samræmi við vegina.

Sumarið hefur annars verið rólegt hjá lögreglunni á Austurlandi og til dæmis kom ekkert mál upp um helgina tengt bæjarhátíðinni Vopnaskaki á Vopnafirði. Um 400 manns munu þó hafa mætt þar á Hofsball.

Á Eskifirði var hins vegar skemmdur bíll, sparkað í hann og hann belgdur. Málið telst upplýst.

Ekki hafa borist tilkynningar um erlend þjófagengi eins og herjuðu á Austfirðinga síðasta sumar. Jónas telur það meðal annars að þakka betri undirbúningi lögreglu og bættu landamæraeftirliti. „Ég held að greiningarnar séu orðnir betri þannig menn átti sig betur á hverjir séu að koma til landsins.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar