Virðingarvika í ME: Læra um taubleyjur og plastlausar blæðingar

Þessi vika er tileinkuð virðingu í Menntaskólanum á Egilsstöðum.  „Megin inntakið er að nemendur átti sig á því að við höfum öll áhrif og við skiptum öll máli. Virðing er ákveðið leiðarstef í því,“  segir Hildur Bergsdóttir, félagsráðgjafi hjá nemendaþjónustu ME.

Hildur segir virðingu eina af þremur gildum sem skólinn starfar eftir og ákveðið hafi verið að tileinka eina viku í vetur hverju gildi. „Gildin eru valin í samstarfi nemenda og starfsfólks, virðing er eitt af þessum gildum ásamt jafnrétti og gleði. Við ákváðum til að gera þessum gildum hátt undir höfði og gera þau sýnilegri í skóastarfinu með því að tileinka eina viku hverju gildi, nú er virðingarvika en eftir áramót verða gleðivika og jafnréttisvika.“

Hildur segir gildin alltaf vera höfð að leiðarljósi í skólastarfinu og í þessum sértöku þemavikum verði þeim lyft meira upp og þau gerð sýnilegri. „Í þessari viku erum við aðallega að leggja áherslu á virðingu fyrir sjálfum sér, virðingu fyrir öðrum og virðingu fyrir umhverfinu. Við höfum verið með ýmsa viðburði útfrá þessum þemum.“

Formleg dagskrá virðingarviku er nokkuð þétt með í það minnsta einum stórum viðburði á dag. „Á mánudag kom Unnar Erlingsson til okkar og setti vikunna og við fengum fyrirlestur frá ungum umhverfissinnum. Á þriðjudag kom Beggi Ólafs sem er fyrirlesari og þjálfunar sálfræðingur, hann er mjög fyrirferðarmikill a samfélagsmiðlum. Á þriðjudag var líka alþjóðadagur gegn sjálfsvígum, þá klæddumst við gulu sem stendur fyrir ljósið í myrkrinu. 

Í gær var hinseginfélag ME, kindsegin, með spurningakeppni. Kindsegin er regnbogafélag fyrir nemendur sem skilgreina sig undir 78 regnboganum. Í gær fórum við líka og týndum rusl í umhverfi skólans. Í dag verðum við með spjall um umhverfismál auk plöntu- og afleggjaraskipta. Að lokum verður á morgun fyrirlestur um umhverfisvænar blæðingar, þar sem er verið að kynna ýmsar umhverfisvænar leiðir,“ segir Hildur. 

En virðingarvikan felst ekki engöngu í þessari formlegu dagskrá. „Svo er allt mögulegt annað búið að vera í gangi. Ég veit að kennararnir hafa verið að flétta þetta inní kennslu. Þau voru tildæmis að læra um taubleyjur í uppeldisfræði og æfa sig á dúkkum og böngsum. Svo erum við að leggja áherslu á að fólk komi gangandi í skólann eða noti umhverfisvæna samgöngumáta og drekki vatn úr fjölnota brúsum. Við viljum líka benda nemendum á að gos- og orkudrykkirnir sem mörg þeirra neyta í miklu mæli eru ekki í umhverfisvænum umbúðum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar