Vinnuafl og íbúðarhúsnæði vantar á Borgarfirði: Tvö hótel í byggingu

braedslan_0032-1_web.jpgMikil eftirspurn er eftir vinnuafli á Borgarfirði eystri þessa dagana og anna Borgfirðingar henni ekki allri sjálfri. Erfitt er samt að fullnægja eftirspurninni þar sem íbúðarhúsnæði vantar líka.

 

„Það er ekki laust við að það sé einkennileg staða á Borgarfirði þessa dagana. Kaupfélagið er fullt af atvinnuauglýsingum og er erfitt reynist að manna störf sumarsins í firðinum nema með því að flytja inn vinnuafl utan fjarðar en í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja að fá nýtt fólk til fjarðarins. En þá er aftur á móti komið upp það vandamál að ekkert húsnæði er til í firðinum fyrir þá sem vilja koma hingað til þess að vinna,“ skrifar Hafþór Snjólfur Helgason á heimasíðuna borgarfjordureystri.is.

Við aðstæður sem þessar sé „sorglegt“ að horfa upp á fjölda húsa í firðinum sem lítið sé notuð utan hásumarsins. „Það sem er ennþá verra er að mikil eftirspurn virðist vera á íbúðum frá fólki og fjölskyldum sem hefur hug á að vera á Borgarfirði allt árið um kring. Mikið væri það erfitt fyrir okkur sem búum hérna allt árið um kring að sjá að þetta fólk getur ekki fengið íbúð og mun þá jafnvel hætta við að setjast hér að, en það er akkúrat það sem má ekki gerast ef byggð á að haldast hérna í firðinum,“ skrifa Hafþór sem varar við að staðurinn breytist í sumarhúsabyggð.

Miklar framkvæmdir hafa verið á Borgarfirði að undanförnu en þar ber hæst uppbyggingu gistiaðstöðu. Annars vegar er verið að byggja þriðja gistihúsið í Álfheimum en einnig loftið í gamla frystihúsinu. Þar verða tíu herbergi. Ferðamannatímabilið fer að byrja en gestum Borgarfjarðar hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og tímabilið lengst. Heimsóknir til Borgarfjarðar ná hámarki seinustu helgina í júlí þegar tónlistarhátíðin Bræðslan er haldin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.