Orkumálinn 2024

Vill skipta á jöfnu í samningum við Færeyinga

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, segir tíma til kominn að Íslendingar og Færeyingar skipti á sléttu í samningum um fiskveiðar. Skiptimyntin er kolmunni sem skiptir Austfirðinga miklu máli.

Samninganefnd frá ráðuneytinu hélt utan í morgun til viðræðna í dag og á morgun. Á opnum fundi um sjávarútvegsmál á Eskifirði í gærkvöldi sagðist ráðherrann ekki bjartsýnn á að samningar næðust í þessari viðræðu lotu.

Færeyingar hafa leyfi til að veiða 30.000 tonn af loðnu í íslenskri landhelgi á ári auk 5600 tonna bolfiskkvóta. Kristján Þór sagði Færeyinga sækja á að geta veitt loðnuna yfir lengra tímabil til að geta unnið hrogn.

Á móti fá Íslendingar að veiða kolmunna í færeyskri landhelgi. „Það er að mínu viti alltof há greiðsla fyrir þessar heimildir,“ sagði Kristján Þór.

Hann sagði að í ráðuneytinu væri búið að reikna út ákveðnar forsendur sem ásættanlegar séu fyrir Íslendinga og samninganefndin hafi farið út með þær í farteskinu.

„Þeir hafa þau fyrirmæli að skipta á jöfnum verðmætum. Ég tel okkur ekki hafa heimildir til að gefa eftir verðmæti í samningunum.

Ef það næst ekki þurfum við að endurmeta stöðuna og mögulega taka erfiðar ákvarðanir ef ekki um semst. Við greiðum ekki meira fyrir þennan aðgang en við nauðsynlega þurfum.“

Kolmunnaveiðar skipta Austfirðinga miklu máli en samkvæmt tölum frá Hagstofunni var 85% þess kolmuna sem landað var hérlendis árið 2017 landað eystra. Restinni var landað í Vestmannaeyjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.