Vilja undirbúa vindmyllur á svæði sem er á náttúruminjaskrá

Orkusalan kynnti í gær hugmyndir sínar um að rannsaka vindorku á Héraðssandi með hugsanlega byggingu vindmylla í huga fyrir íbúum. Svæðið er á náttúruminjaskrá sem mikilvægt svæði fugla. Ekki er ljóst hvaða áhrif vindmyllurnar myndu hafa á fuglana.

„Við höfðum fyrst hug á að reisa vindmyllu við eina virkjun okkar og böndin beindust fljótt að Lagarfossvirkjun. Þegar við fórum skoða aðstæður þar varð það til þess að við fórum nær sjónum,“ sagði Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, á íbúafundi í Hjaltalundi í gær.

Orkusalan hefur undanfarin fjögur ár kannað aðstæður á Úthéraði með það í huga að koma þar upp vindmyllum og verið í sambandi við sveitarfélagið Fljótsdalshérað.

Fyrirtækið hefur einkum horft á jarðirnar Hól og Klúku. Á fundinum í gær voru sýndar hugmyndir um tvær staðsetningar í landi Klúku, önnur alveg út við sjó en rétt innan við þjóðveginn þar sem hann þverar sandinn. Ekki voru sýndar staðsetningar í landi Hóls.

Vilja sjá hvernig samfélagið bregst við

Nú er svo komið að fyrirtækið vill reisa 80 metra mastur til að mæla vindstyrkinn á svæðinu, „sem fyrst“ svo notuð séu orð framkvæmdastjórans. Komi mælingarnar vel út hefur Orkusalan hug á að koma upp 1-3 vindmyllum sem hver framleiði 3 MW. Aflið úr þeim ætti að duga fyrir 7500 meðalstór heimili.

„Við viljum sjá hvernig samfélagið og íbúarnir taka myllunum. Ef þau viðbrögð eru jákvæð skoðum við framhaldið. Það er ekki meira í plönunum í dag,“ sagði Magnús.

Vindorkan orðin hagkvæm á Íslandi

Bæði Magnús og annar frummælandi, Ketill Sigurjónsson frá Hreyfiafli, svöruðu að fyrirsjáanlegt væri að orkuþörf ykist á næstu árum þegar spurt var um þörfina á virkjun. Orkan sé ætluð fyrir Austurland, flutningskerfið bjóði ekki upp á brottflutning en skapi hins vegar þörf á orkuöflun.

Ketill spáði því að Íslendingar myndu á næstu árum halla sér meira að vindorkunni, nýting hennar sé loks orðin álíka hagkvæm hérlendis og vatnsorku og jarðvarma. Þörf sé á 2500 GWst inn á íslenska raforkumarkaðinn á næstu 15 árum og óljóst hvernig þeirra verði aflað.

Framleiðslugeta vindmylla hefur aukist síðustu ár á sama tíma og kostnaður við þær hefur fallið. Þá sé hagkvæmt að reka þær samhliða vatnsaflsvirkjunum, hægt sé að safna vatni þegar hvasst er.

Mun heyrast í þeim víða um Héraðssand

Vindmyllurnar geta orðið allt að 150 metra háar. Túrbínan er staðsett í um 80 hæð en spaðarnir eru hver um 113 metrar á lengd. Umhverfisáhrif vindmylla felast í því að þær þykja lýti á landi og búa til hávaða.

Myllurnar á Héraðssandi kunna að sjást í allt að 25 km fjarlægð. Landslagið í kring hefur hins vegar mikil áhrif á hvort þær sjást eða ekki, reikna má með að fólk fari að taka eftir þeim í 6-8 km fjarlægð. Í nágrenni þeirra gætir einnig skuggaflökts þegar spaðarnir ganga fyrir sólarljósið. Hægt er að velja betri staðsetningar til að fela myllurnar þegar vindmælingar liggja fyrir.

Töluverður dynur berst einnig frá vindmyllum. Reikna má að hljóðstyrkurinn sé yfir 40 db á 3,5 ferkílómetra svæði í kringum þær. Hávaðinn veltur þó á veðri og vindum, þegar hann er mestur heyrist einnig í vindinum og óvíst að fólk greini hvaða afl skapi hljóðið. „Það mun heyrast í þeim allvíða um Héraðssand,“ sagði Birta Kristín Helgadóttir, verkfræðingur frá Eflu sem unnið hefur fyrir Orkusöluna.

Að auki þarf að leggja vegi að myllunum, byggja undirstöður og opna námur. Áhrifin af framkvæmdunum eru að langmestu afturkræf og fullkomlega afturkræf af mælimastrinu. Líftími vindmyllnanna er áætlaður 25 ár. Gert er ráð fyrir að rafmagn frá myllunum yrði flutt með 66 kV jarðstrengjum í Lagarfoss. Nálægð við tengivirkið er eitt af því sem gerir staðsetninguna hagkvæma.

Alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði

Mestu áhrifin af myllunum yrðu trúlega á fuglalíf en stór hluti Hjaltastaðaþinghár, þar með svæðið sem myllurnar yrðu reistar á, er á náttúruminjaskrá vegna gróðurfars og fuglalífs. „Þetta er skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði, ekki bara á Íslandi heldur alþjóðlega,“ sagði Skarphéðinn G. Þórisson, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands en hann var gestur á fundinum.

Skarphéðinn benti á að á svæðinu sé eini varpstaður grátrönu á Íslandi sem hafi byrjað að verpa á landinu fyrir fjórum árum. Þá var á fundinum lesið upp bréf frá Fuglavernd þar sem áformunum er mótmælt. Birta Kristín sagði að leiðir fugla um svæðið yrði að skoða nánar.

Vantar reglur um vindmyllur

Bæjarfulltrúar sem sátu fundinn spurðu út í fasteignagjöld af virkjuninni og ágóða sveitarfélagsins. Á það var bent að ekki væru til nein lög um deiliskipulag af vindmyllum en þau hafi verið í undirbúningi. Íbúar á svæðinu hvöttu meðal annars til þess að sveitarfélagið mótaði sér stefnu um orkunýtingu á sínu svæði.

Talsmenn Orkusölunnar lýstu yfir vilja sínum til að vinna náið með sveitarfélaginu að útfærslum á gjöldum. Ekki væri enn til íslenskt fordæmi og útfærslur erlendis væru fjölbreyttar. Eins að fleiri sveitarfélög bíði eftir skipulagslögum meðan önnur séu byrjuð í slíkri vinnu. Þá séu til leiðbeiningar frá bæði Landvernd og Skipulagsstofnun.

Magnús gaf engin ákveðin svör um framkvæmdatíma. „Við erum ekki á risahraðferð, ekkert hindrar að við förum hratt en við viljum vinna vel. Við viljum setjast niður með forsvarsmönnum sveitarfélagsins og komast að því hvort áhugi sé fyrir rannsóknum. Í kjölfar þeirra kemur í ljós hvar við munum staðsetja myllurnar, hve margar þær verða og hvað verkefnið kostar.

Við ætlum einhvers staðar í vindorku. Það er dýrt að halda úti verkefni sem ekkert er að gerast í og því þarf að skoða málið hratt og vel til að halda því á lífi. Það kostar gríðarlega fjármuni að fara í rannsóknarmastur og við förum ekki í þá vinnu nema bæjarfélagið ætli með okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.