Vilja undanþágu frá umhverfismati fyrir ofanflóðavarnir

Íbúar og forsvarsfólk sveitarfélagsins Múlaþings þrýsta á um að framkvæmdir við ofanflóðavarnir í sunnanverðum Seyðisfirði fái undanþágu frá mati á umhverfisáhrifum í von um að þeim verði flýtt.

Þetta kom fram í umræðum á íbúafundi á Seyðisfirði í gær þar sem frumathugun á ofanflóðavörnum fyrir byggðina að sunnanverðu var kynnt. Frumathugunin lá reyndar fyrir að mestu í vor og var kynnt þá. Síðan hefur hún verið útfærð nánar, einkum mótvægisaðgerðir sem miða að því að varnirnar falli sem best inn í landið.

En þótt frumathugunin liggi fyrir er talsvert í land enn. Viðbúið er að mat á umhverfisáhrifum taki 1-2 ár, en inni í því eru meðal annars rannsóknir á náttúrufari og fornleifaskráning. Eins þarf að gera deiliskipulag fyrir svæðið. Lokahönnun er líka eftir.

Á fundinum var bent á að þetta ætti allt að liggja fyrir um það leyti sem framkvæmdum við snjóflóðavarnir í norðanverðum firðinum ljúki. Útlit er fyrir að þær tefjist um ár þar sem verkið hefur reynst umfangsmeira en áætlað var, lengra var niður á fast og því þörf á meira efni. Samkvæmt því ættu þær að vera búið árið 2026. Þá væri hægt að ráðast í varnirnar í norðanverðum firðinum strax í framhaldinu.

Íbúar óþreyjufullir

Ljóst er að bæði íbúum á Seyðisfirði og pólitískum fulltrúum í Múlaþingi þykir þessi bið löng. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, varpaði því upp þeirri spurningu hvort hægt væri að fá undanþágu frá umhverfismatinu til að reyna að flýta ferlinu. Hann sagðist ekki sjá neitt neikvætt umhverfislega við að reyna að verja byggðina. Eyþór Stefánsson, fulltrúi Austurlistans, sagðist líta á slíka undanþágu sem pólitískt mál sem væntanlega yrði þverpólitísk samstaða um að þrýsta á innan sveitarstjórnar. Seyðfirðingar spurðu hvort líf þeirra og eigur skiptu ekki meira máli en umhverfismatið.

Hafsteinn Pálsson, starfsmaður Ofanflóðasjóðs, sagði engin fordæmi fyrir undanþágu frá umhverfismati og aldrei hefði verið talið rétt að óska eftir slíkri undanþágu við gerð varnarmannvirkja. Það hefði þvert á móti verið talinn nauðsynlegur undanfari slíkra framkvæmda. Þar gæfist íbúum og öðrum hagsmunaaðilum færi á að koma á framfæri athugasemdum, sem væri svo sem líka hægt í skipulagsferlinu. „Svona er regluverkið og við sættum okkur við að fara eftir því,“ sagði Hafsteinn.

Hafsteinn reyndi hins vegar að benda á að það sem skipti ekki síst máli við uppbyggingu varna væri fjármögnun ríkisins. Í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri 2020 hefði íslenska ríkið sett þá stefnu að þeim yrði öllum lokið fyrir árið 2030. Verðhækkanir síðan, svo sem á olíu og málmum, þýði að erfitt verði að ná því marki og líklegra sé að það verði ekki fyrr en 2032, nema ríkið bæti við frekara fjármagni. Slík gæti gert það mögulegt að vinna samtímis í vörnum bæði í norðanverðum og sunnanverðum Seyðisfirði.

Er ekki raskið þegar orðið?

Seyðfirðingar spurðu líka í hverju umhverfismatið fælist þar sem framkvæmdirnar eru fyrst og fremst stækkun á bráðavörnum sem reistar voru í byrjun árs 2021 eftir skriðuföllin í desember 2020. Fram kom að þá hefði verið nýttar sérstakar heimildir til aðgerða í hættuástandi því verja þurfti bæði íbúa en ekki síður það fólk sem kom að hreinsunarstarfinu á skriðusvæðunum. Það ástand sé ekki uppi núna auk þess sem raska þurfi nýjum svæðum og því þörf að fara eftir venjulegum reglum.

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur sem leitt hefur frumathugunina, sagðist skilja óþreyju íbúa en minnti á að framtíðarvarnirnar væru þrenns konar og mikið af þeim komið í gang þannig aðstæður væru allt aðrar en þær hefðu verið fyrir tveimur árum.

Síðan hefur bætt verulega í vöktunarkerfi hlíðarinnar sem hafi gefið góða raun. Enn þurfi þó að læra betur á gögnin sem það veitir til að skilja hvað geti talist eðlilegar hreyfingar. Jón Haukur benti á að víðast erlendis væri vöktunin ein og sér látin duga en ekki ráðist í frekari framkvæmdir.

Hinir tveir angar aðgerðanna eru annars vegar fyrirbyggjandi aðgerðir, svo sem drenskurðir og annað sem kemur í veg fyrir að vatn safnist saman, einkum uppi í Neðri-Botnum. Að lokum séu það hinar eiginlegu varnir sem grípi inn í þegar skriða fari af stað og beini henni frá byggðinni.

Hluti þeirra er kominn og er talið að þær dugi til að taka við þótt jarðvegshryggur við Búðará, sem mestar áhyggjur hafa verið af enda hreyfing á honum síðustu tvö ár, færi allur í einu. Á fundinum var spurt út í hugmyndir sem viðraðar hafa verið um að honum yrði komið handvirkt af stað, svo sem með stórvirkum vinnuvélum.

Jón Haukur svaraði að hryggurinn væri það sundurlaus og sprunginn að ekki væri forsvaranlegt að senda tæki á svæðið. Hugmyndin hefði því ekki verið skoðuð af alvöru. Mesta hættan sé ef hryggurinn falli í farveg Búðarár og stífli hana, þess vegna hafi þró í ánni verið gerð eins stór og hægt var.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.