Vilja skoða möguleikann á gjaldtöku af alvöru

Fulltrúar í bæjarstjórn Seyðisfjarðar eru tilbúnir að skoða af fullri alvöru að innheimta veggjöld í Fjarðarheiðargöng verði það til þess að flýta fyrir framkvæmdum. Formaður bæjarráðs segir tíðindi í síðustu viku skapa vendipunkt í gangabaráttunni.

„Bæjarstjórn hefur áður sagt að Seyðfirðingar sjái ekkert að því að borga einhver veggjöld ef það flýtir fyrir framkvæmdum. Til þess þarf pólitíska ákvörðun, það hefur ekki verið gjaldtaka í göngum þegar aðeins hefur verið val um eina leið, eins og er til Seyðisfjarðar yfir vetrartímann,“ segir Elfa Hlín Pétursdóttir, formaður bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar í samtali við vikublaðið Austurgluggann.

Tvennt hefur skapað aukna umræðu um gjaldtöku í göngin. Annars vegar ný 15 ára samgönguáætlun sem gerir ekki ráð fyrir Fjarðarheiðargöngum fyrr en á árunum 2029-2033 og því fyrirsjáanlegt tíu ára hlé á jarðgangaframkvæmdum á landinu. Hins vegar funduðu bæjarfulltrúarnir með fulltrúum tveggja jarðganga í Færeyjum.

Meiri umferðaraukning en reiknað var með

Fulltrúar Vága- og Norðoyajarðganganna voru hérlendis í nýverið og heimsóttu meðal annars Vaðlaheiðargöng og Norðfjarðargöng. Vágagöngin voru opnuð 2002 en Norðoyagöngin 2006.

Bæði göngin eru í sérstöku félagi sem er að fullu í eigu færeyska ríkisins. Það lagði til helming stofnkostnaðar en hinn helmingur var fjármagnaður með láni á lágum vöxtum úr sérstökum innviðasjóði með tryggingu í göngunum sjálfum.

Bæði göngin liggja undir sjó. Þurftu þeir sem vildu komast á milli áður að borga fyrir far með ferju og greiðsluvilji þannig var til staðar.

Að sögn Elfu kom það fram á fundinum að búið væri að borga bæði göngin upp og hefði umferð um þau reynst mun meiri en reiknað var með. Í dag hafa veggjöldin lækkað og eru nýtt til viðhalds á göngunum.

Til í samtalið

Fulltrúar Seyðisfjarðar nýttu tækifærið í kjördæmaviku Alþingis í síðustu viku til að kynna fyrirkomulagið fyrir þingmönnum kjördæmisins. Elfa segir að hugmyndum Seyðfirðinga hafi ekki verið illa tekið þótt þær þýði mikla stefnubreytingu.

„Við teljum kominn tíma á að setja meiri þunga í að skoða möguleikann á gjaldtöku. Það vekur hins vegar upp margar spurningar, meðal annars hvers vegna rukkað yrði í Fjarðarheiðargöng en ekki önnur jarðgöng. Þetta þýðir líka aðra hugsun um framkvæmdir á Íslandi. Við erum hins vegar til í þetta samtal og erum farin að leggja drög að því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar