Vilja halda rafrænt þorrablót á næsta ári

Þorrablótsnefnd Egilsstaða hefur óskað eftir fjárstuðningi hjá sveitarfélaginu til þess að hægt verði að koma á rafrænu þorrablóti á næsta ári.

„Málið er í vinnslu hjá okkur en það er ljóst að ekki verður hægt að halda venjulegt þorrablót á næsta ári vegna COVID,“ segir Gunnlaugur Jónasson sem er í forsvari fyrir þorrablótsnefndina ásamt eiginkonu sinni Huldu Daníelsdóttir.

Aðspurður um í hverju rafrænt þorrablót er fólgið segir Gunnlaugur að ýmsar hugmyndir séu til skoðunar. „Það mætti til dæmis hugsa sér að sameiginleg skemmtiatriði yrðu búin til og síðan send út á netinu eða í gegnum sjónvarpið,“ segir Gunnlaugur. „En þetta á allt eftir að ræða betur.“

Fram kemur í máli Gunnlaugs að þorrablótin séu ljós í myrkrinu á veturnar og því afleitt ef þau leggjast alveg af á næsta ári.
„Þetta er spurning um að halda ekki þorrablót eða finna leiðir til þess að halda það og við erum að leita að þeim leiðum,“ segir Gunnlaugur.

Fjallað var um beiðni um fjárstuðninginn á síðasta fundi byggðaráðs Múlaþings. Þar var bókað að
byggðaráð samþykkir að fela atvinnu- og menningarmálastjóra að afla upplýsinga hjá öllum þorrablótsnefndum sveitarfélagsins varðandi það hvernig þær hyggist standa að framkvæmd þorrablóta 2021. Er þær upplýsingar liggja fyrir verður málið tekið fyrir á ný.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.