Vilja greiða aðgang yngstu iðkendanna að sem flestum íþróttagreinum

Íþróttafélagið Höttur, í samstarfi við Múlaþing, vinnur nú að þróunarverkefni sem snýr að því að auka þátttöku yngstu iðkendanna á Egilsstöðum, koma í veg fyrir brottfall og horfa til þess að í framtíðinni geti nemendur í yngstu bekkjum grunnskóla sveitarfélagsins iðkað þær íþróttir sem þeir vilja endurgjaldslaust.

Félagið vill þar með koma í veg fyrir að fjárhagsstaða heimila og félagsleg aðstaða barna komi í veg fyrir að börn geti notið sín í íþróttum. Þá ætlar félagið að skipuleggja starf sitt á þann veg að börn geti fyrstu árin æft ýmsar íþróttir á sama tíma, jafnvel að barn geti æft í öllum deildum félagsins. Hugmyndir Hattar hafa bæði verið kynntar fyrir fjölskylduráði Múlaþings sem og formönnum allra deilda íþróttafélagsins og hefur þeim verið vel tekið.

Fá að kynnast fjölbreyttum íþróttum
Óttar Steinn Magnússon, gjaldkeri Íþróttafélagsins Hattar, hefur séð um að kynna verkefnið sem hann segir að hafi hafist í stefnumótunarvinnu félagsins þar sem félagið komst að þeirri niðurstöðu að vilja einblína á að virkja öll börn í íþróttastarfi. Höttur vill verða vettvangur þar sem öll börn fá tækifæri til að iðka fjölbreyttar íþróttir á sínum forsendum með forvarnargildi, lýðuheilsumál og félagslegan þroska að leiðarljósi. Félagið hefur fengið Svein Þorgeirsson, sem er háskólamenntaður í íþróttaþjálfun og vísindum, til liðs við sig í mótun verkefnisins.


„Vandamál Hattar í dag er í raun helst það að framboð á greinum er gríðarlega fjölbreytt og gott miðað við stærð félagsins. Við erum með 9 virkar deildir innan félagsins og úrvalið fyrir iðkendur því gríðarlegt. Það sem við viljum breyta er að börn sem eru að hefja grunnskólagöngu standi ekki frammi fyrir því að "þurfa" að velja sér grein strax við 6 ára aldur. Við viljum að börn deili eggjunum í körfurnar í upphafi, færi þau svo til og sameini í körfur eftir því sem líður á grunnskólagönguna, á sínum forsendum. Við erum að glíma við það að brottfall úr íþróttum er mikið upp úr miðri grunnskólagöngu og staðan er svo enn verri þegar við erum komin upp í framhaldsskólaaldur. Þessu viljum við snúa við,“ segir Óttar Steinn um ástæður verkefnisins.

Börnin fá að finna sína hillu
Höttur vill að börn sem eru að hefja grunnskólagöngu sína eigi kost á því að iðka sem flestar íþróttir og fá þar með breiðari sýn á íþróttastarf félagsins en annars hefði orðið. Óttar segir að félagið vilji að börnin finni sína hillu í íþróttunum sjálf en ekki að foreldrar ákveði hvaða leið börn þeirri fari, því óhjákvæmilega eru það oftast foreldrarnir sem stjórna för í þeim efnum.


Félagið vill einnig skipuleggja starf sitt á þann veg að börnin geti verið í eins mörgum íþróttum og þau vilja þegar þau eru á yngsta stigi. „Það er til ákveðið viðmið sem segir að barn skuli ekki æfa sömu grein lengur en 8 mánuði á ári og að heildaræfingatími á viku eigi ekki að fara yfir 1 klst fyrir hvert aldursár. Hugmyndin er því að endurskipuleggja starf deildanna á þann hátt að opna leiðir þvert á deildir þannig að börn hafi tækifæri til að æfa allar eða flestar greinar.“

Öll börn fái sömu tækifæri
Hugmynd Hattar er ekki síst að ná til barna sem æfa ekki íþróttir í því fyrirkomulagi sem nú er félaginu. Ætlunin er að fjölga iðkendum í öllum deildum félagsins og minnka brottfall. Þá vill félagið koma í veg fyrir að félagslegar aðstæður barna, s.s. fjárhagsstaða heimils barns, hafi áhrif á tækifæri barns til íþróttaiðkunar. „Hlutir eins og æfingatímar, æfingagjöld og annað slíkt er stór áhrifavaldur og við viljum eyða þeirri breytu út. Hluti af þeirri hugmyndafræði er að reyna að koma þeim æfingum sem hægt er, fyrir yngstu iðkendurna, fyrir á þeim tíma sem frístund er í skólastarfinu, þannig að það myndist samfella í skóla- og tómstundastarfi. Börnin séu því mögulega búin með sína föstu dagskrá við lok vinnudags foreldra og hafi því tækifæri á aukinni samveru við fjölskyldu og vini, auk þess að hafa tíma fyrir aðrar tómstundir og áhugamál. Þá segir Óttar að rannsóknir sýni að fjölbreyttari æfingar yngri iðkenda skili öflugra alhliða íþóttafólki. „Afreksstefna á rétt á sér og það er ekki markmiðið að leggja það starf til hliðar. Við teljum að verkefni sem þetta muni auka þann fjölda sem nái inn á það svið, því iðkendur hafi tækifæri til að velja sér "sína" grein þegar þau hafa þroska og reynslu til þess. Við höfum ekki efni á að einungis þeir áhugasömustu og "bestu" haldi áfram í íþróttum fram á framhaldsskólaár. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að iðkendur sem eru virkir í íþróttastarfi á framhaldsskólaaldri eru líklegri til að taka þátt í starfinu eftir að þau hætta sjálf iðkun. Það er skortur á fólki sem býður sig fram í stjórnarstörf, þjálfun, dómgæslu og ýmis sjálfboðaliðastörf sem eru nauðsynlegur hluti af góðu íþróttastarfi,“ segir Óttar.

Vonast til að vegferðin hefjist haustið 2022
Óttar Steinn segir að draumur félagsins sé að sveitarfélagið verði leiðandi á landsvísu í að bjóða upp á íþróttir fyrir alla. Hann segir að viðbrögð Múlaþings við hugmyndum Hattar hafi verið jákvæð og þrátt fyrir að Höttur sé aðeins að einblína á Egilsstaði eins og stendur vill Höttur að þessi stefna verði tekin upp í öllum byggðarkjörnum Múlaþings. „Við viljum að öll börn í 1.-4. bekk í Múlaþingi hafi greiðan aðgang að æfingum í sem flestum greinum, sér að kostnaðarlausu. Við höfum tækifæri til að verða eitt af fyrstu íþróttafélögunum til að taka þetta skref og við erum sannfærð um að fleiri munu fylgja í kjölfarið.“


Verkefnið er á þeim stað núna að allir formenn deilda í Hetti eru að kostnaðargreina verkefnið. Eftir það verður lögð fram áætlun um kostnað til sveitarfélagsins. „Vonandi fáum við áfram jákvæð viðbrögð frá þeim og getum látið þetta verða að veruleika,“ segir Óttar en stefnt er að því að vegferðin geti hafist á næsta ári, haustið 2022. Haldið verður áfram að þróa verkefnið á komandi vetri í samstarfi við fulltrúa úr öllum deildum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.