Vilja gera úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara

Lögð hefur verið fram þingsályktunartillögu um að gerð verði úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Tillagan kemur fram eftir skriðurnar á Seyðisfirði í desember og er ætlað að kanna hvernig hægt sé að bæta úr í tryggingaverndinni.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi er fyrstu flutningsmaður tillögunnar en fjórir aðrir þingmenn flokksins eru einnig skrifaðir fyrir henni.

Í greinargerð tillögunnar er vísað til skriðufallanna á Seyðisfirði, aðventustormsins 2019 og snjóflóða á Flateyri snemma árs 2020 sem náttúruhamfarir sem skapað hafi mikla umræðu um hvaða tjón fæst bætt úr höndum Náttúruhamfaratryggingar.

Á Seyðisfirði hefur verið bent á að misræmi sé í bótum til þeirra sem hafi misst húsnæði sitt í skriðunum eða sé gert að flytja úr því vegna skriðuhættu sem og takmarkaðra bóta á atvinnuhúsnæði.

Flutningsmenn telja tímabært að leggja mat á samspil ólíkra þátta svo sem Náttúruhamfaratryggingar, Ofanflóðasjóðs, Bjargráðasjóðs sem og keyptra trygginga og kanna hvort göt séu í kerfinu eða tilefni til úrbóta.

Lagt er til að úttektin nái til náttúruhamfara síðustu tíu ár og í henni verði meðal annars kannað hvers konar eignir hafi ekki verið bættar, hvers vegna ekki, jafnræði milli einstaklinga, lögaðila, bætur vegna tryggingatjóns og hvernig kostnaði vegna hreinsunaraðgerða sé skipt.

Þá er lagt til að í úttektinni verði kannað hvernig hægt verði að auka jafnræði og sanngirni við viðbrögð vegna náttúruhamfara til framtíðar, svo sem með breytingum á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum.

Lagt er til að úttektinni verði skilað í formi skýrslu til Alþingis eigi síðar en 1. nóvember.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.