
Vilja gera Kaupvang að kraftmeira hjarta Vopnafjarðar
Útlit er fyrir að mun meira líf færist í hið merka hús Kaupvang á Vopnafirði en vonir margra á staðnum eru að húsið verði mun kraftmeira hjarta bæjarins en hingað til hefur verið.
Ein þeirra sem þess óska er Fanney Björk Friðriksdóttir, formaður menningar- og atvinnumálanefndar Vopnafjarðarhrepps, en hún segir nú loks að birta aðeins til í málefnum hússins og ekki seinna vænna.
„Það hafa verið köll eftir að ráða sérstakan aðila sem sæi um menningar-, atvinnu og ferðamál á svæðinu og reyndar stóð til að ráða slíkan aðila strax á síðasta ári samkvæmt áfangastaðaáætlun Austurlands. Slíkan aðila þarf til að koma hjólunum af stað í þessum málaflokkum.“
Nú loks er útlit fyrir að það vera að hluta til að veruleika því Austurbrú hefur auglýst eftir sérstökum verkefnisstjóra með aðsetur á Vopnafirði og sá mun til að byrja með hafa með þessi mál að gera auk annars að sögn Fanneyjar.
„Kaupvangur er gamalt hús með mikla sögu, á góðum stað í bænum og glæsilegt á að líta. Það hefur nú þegar góðan veitingastað, vesturfarasafn, handverkssölu á sumrin og fleira en mér og öðrum finnst vanta að einhver extra kraftur verði settur í að gera þetta að alvöru menningarmiðstöð. Það margt sem betur má fara í að koma Vopnafirði á kortið en við erum með frábæra innviði, margar náttúruperlur og tækifæri fyrir kröftugt fólk.“
Fanney segir sem dæmi að upp hafi komið sú hugmynd að setja upp röð sýninga í húsinu um vopnfirsk skáld en eitthvað slíkt myndi stórauka menningargildi hússins fyrir bæði íbúa og gesti.
Kaupvangshúsið er eitt hið merkasta í Vopnafirði en þar á stundum vantað upp á að líf sé í húsinu. Það skal brátt færa til betri vegar. Mynd Austurland.is