Vilja fá að veiða hreindýr á griðlandinu við Snæfell

Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum (FLH) hefur óskað eftir því við stjórnendur Vatnajökulsþjóðgarðs að veiðar verði heimilaðar á griðlandi umhverfis Snæfell. Fjöldi dýra hefur haldið sig þar í sumar. Svæðisráð hefur lýst vilja til að skoða málið en ljóst er að engar breytingar verður áður á síðustu dögum þessa veiðitímabils.

„Þetta er búið að vera erfitt ástand því það hefur ekkert verið af dýrum annars staðar á svæði tvö,“ segir Jón Hávarður Jónsson, formaður FLH.

Félagið sendi nýverið erindi inn á síðasta fund svæðisráðs austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs með ósk um að banni við hreindýraveiðum innan griðlandsins verði aflétt.

Tarfaveiðum lauk á miðvikudag en síðasti veiðidagur kúa er mánudagurinn 20. september. Ekki er útlit fyrir að um helgina takist að ná öllum þeim kvóta sem gefinn var út. Hluti þess er að fjölmörg dýr hafa haldið sig innan griðlandsins í sumar.

Aukið álag á önnur svæði og aðrar hjarðir

Jón Hávarður segir ekki óþekkt að hjarðir haldi sig hluta veiðitímans innan griðlandsins en þau færi sig yfirleitt af því þegar vindur blæs úr norðri. Nú hafa hins vegar verið stöðugar sunnanáttir. „Við erum á Hraununum að leita að dýrum en finnum ekkert. Það er skrýtin staða þegar maður óskar eftir norðanátt,“ sagði Jón Hávarður sem var á veiðum þegar Austurfrétt náði af honum tali fyrir hádegið.

Hann segir að strax hafi skapast ágreiningur um hreindýraveiðibannið þegar það var sett á með stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins. Veiðimenn hafi lagst gegn banninu því ekki var mikið veitt innan griðlandsins en þeir sem vildu koma koma því á hafi notað sömu rök. Enginn hafi séð fyrir þróunina sem leiði til stöðunnar sem nú sé komin upp.

Jón Hávarður segir að staðan nú leiði til þess að meira veiðiálag verða á þær hjarðir sem séu utan griðlandsins. „Það er fyrirfram ákveðið hve mörg dýr verða veidd og það er reynt að fella þau. Þess vegna er sótt harkalega í þau sem ekki hafa skynsemi til að vera innan griðlandsins. Okkur finnst við hafa mætt ákveðnu skilnings- og áhugaleysi til að taka á málinu. Eina lausnin hefur verið að vísa veiðileyfahöfum af svæði 2 á önnur svæði, sem gerir ekki annað en auka álagið þar.“

Aðspurður svarar hann að þessar hjarðir sem haldi til á griðlandinu kunni að geta af sér aðrar kynslóðir sem hangi jafnframt innan griðlandsins. „Það er þekkt að dýrin sækja á sömu svæðin.“

Jón Hávarður telur að þau rök sem sett voru fyrir hreindýraveiðibanninu haldi ekki. Veiðarnar trufli ekki gæsir á svæðinu því þær séu búnar að koma upp ungum sínum. Meira álag sé af göngufólki á öðrum svæðum og þar hafi veiðarnar ekki truflað ferðafólk. Þá sé engin krafa um veiðibönn á votlendissvæðum í Ramsar-verndarflokki. „Það stendur fátt eftir nema að þeim sem settu veiðibannið á sé illa við veiðimenn. “

Svæðisráð vill ræða málin

Hann viðurkennir að ekki sé líkur til að breytingar verði í ár en vonast til að staðan verði endurmetin fyrir næsta ár. „Ég vonast til að það myndist einhver vitræn umræða um þetta. Til þessa höfum við bara fengið þvert nei og enginn viðræðugrundvöllur verið.“

Leiðsögumönnum kann að verða að þeirri ósk sinni að fá umræðu. Í samtali við Austurfrétt staðfesti Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsverður á austursvæði, að veiðibanninu yrði ekki aflétt í ár en málið yrði skoðað. Svæðisráðið fól þjóðgarðsverði, lögfræðingi og öðru starfsfólki að hafa samband við Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofu Austurlands til að fá álit á erindinu. „Þetta er í ferli. Það er vilji svæðisráðsins að skoða þetta í samvinnu við hagsmunaðila,“ sagði hún.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.