Orkumálinn 2024

Vilja ekki fjórðu ruslatunnuna við öll hús í Fjarðabyggð

Varðandi tunnur við íbúðarhús fannst nefndarmönnum ekki forsvaranlegt að bæta við fjórðu tunnunni þar sem það kemur til með að valda mörgum íbúum óþægindum og fyrirhöfn varðandi ruslatunnuskýli svo eitthvað sé nefnt,“ segir Þuríður Lillý Sigurðardóttir, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar.

Töluverðar breytingar á úrgangsmálum eru í farvatninu í Fjarðabyggð eins og öðrum sveitarfélögum landsins en nýtt regluverk í úrgangsmálum gengur í gildi frá og með áramótum. Frá þeim tíma verður gerð krafa til fyrirtækja og heimila landsins að fjórflokka allan úrgang sem til fellur en verkefnið er hluti af innleiðingu hringrásarhagkerfisins hér á landi. Verður heimilum og fyrirtækjum skylt að flokka sér í tunnur lífrænan úrgang, plast, pappír auk málma og glers.

Mismunandi er hvernig sveitarfélög landsins hyggjast koma þessu í framkvæmd en Þuríður segir nefndarmenn í Fjarðabyggð sammála um að reyna frekar að tvískipta tunnum sem þegar eru til staðar við heimili og vinnustaði en bæta við þeirri fjórðu.

„Fjórða tunnan myndi auk annars valda auknum kostnaði fyrir sveitarfélagið sjálft. Nefndinni leist því betur á tvískipta tunnu og eru starfsmenn málaflokksins að vinna málið áfram ásamt kostnaðaráætlun, samtölum við verktaka og fleiru sem máli skiptir við slíka breytingu.“

Þuríður telur almennt að sveitarfélagið sé vel undir þessa breytingu búið en áfram verði fylgst með allri þróun og tekið upp það kerfi sem best kemur sér fyrir íbúa og Fjarðabyggð í heild.

Þeir borga sem henda

Annað sem breytist um áramót, eða upp úr þeim eftir tilvikum, er að eftirleiðis það þarf að greiða fyrir allan úrgang sem farið er með á grenndarstöðvar en slíkt hefur verið að mestu verið án beins kostnaðar hingað til.

Hjá sveitarfélögum eins og Fjarðabyggð kallar þetta á talsvert meiri umsvif í málaflokknum að sögn Þuríðar

„Innleiðingin tekur tíma og við gefum okkur bróðurpart næsta árs til að innleiða hana að fullu. Með þessu þarf að manna móttökustöðvar og annaðhvort vigta eða rúmmálsmæla úrgang sem þarf að greiða fyrir. Við okkur blasir því óhjákvæmileg breyting á rekstri móttökustöðva.“

Á móti hyggst sveitarfélagið setja upp grenndarstöðvar á tilteknum stöðum sem auðvelda á íbúum verkin. Þær verða aðgengilegar, snyrtilegar og hefur reynst þægilegt kerfi í öðrum sveitarfélögum. Íbúar verða ekki bundnir af sérstökum opnunartímum þeirra nema um sé að ræða grófan eða óendurvinnanlegan úrgang.

Leita álits íbúa á Austurlandi

Innleiðing hringrásarkerfisins er í fullum gangi annars staðar hér austanlands og nú hefur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í samvinnu við Austurbrú ákveðið að leita til íbúa fjórðungsins til að fá betri yfirsýn um úrgangsmál eftir áramótin og hvernig best sé að aðlaga breyttar reglur að högum fólks á svæðinu.

Hefur verið óskað eftir svörum íbúa við könnun af þessu tilefni en niðustöðurnar verða hluti af svæðisáætlun Austurlands um meðhöndlun úrgangs í kjölfarið. Könnun þessa má finna hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.