
Vilja efla verklegt nám í grunnskólum
Fyrir áramót á skólaárinu sem nú er farið af stað stendur Fjarðabyggð að tilraunaverkefni til að efla verknám í grunnskólum sveitarfélagsins í samstarfi við Verkmenntaskóla Austurlands.
Nemendum í níunda og tíunda bekk í grunnskólum Fjarðabyggðar býðst að velja sér tvær valgreinar í Verkmenntaskóla Austurlands til að leggja stund á í haust en eftirfarandi greinar standa nemendum til boða: málmur og vél, bifreiðar, húð og hár, rafmagn, húsasmíði og Fablab.
Verkefnið er sagt vera liður í því að gera námsframboð fjölbreyttara og efla verklega kennslu í grunnskólum með því að nýta þá sérþekkingu og tæknibúnað sem til staðar er í VA. Nemendurnir fá 16 klst. kennslu í haust í hvorri grein sem þau velja en kennt verður eftir hádegi á fimmtudögum. Verkefnið hófst fyrir tæpum tveimur vikum síðan og eru það nemendur í tíunda bekk auk níunda bekkjar í Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla sem verða í verkefninu næstu átta vikur og eftir það tekur níundi bekkur við.
Ávinningur verkefnisins á einnig að vera sá að jafnaldrar í byggðakjörnum Fjarðabyggðar kynnist betur í gegnum verkefnið. „Um tilraunaverkefni er að ræða nú á haustönninni og vonandi verður árangurinn þannig að þetta verði árlegt verkefni sem þróist áfram nemendum til hagsbóta,“ segir Þóroddur Helgason, fræðslustjóri Fjarðabyggðar, um tilraunaverkefnið.