Orkumálinn 2024

Vilja „brjóta upp“ stórfyrirtæki í sjávarútvegi

Sósíalistaflokkur Íslands er sá flokkur sem boðað hefur róttækustu breytingarnar í sjávarútvegsmálum af þeim flokkum sem nú eru í framboði. Nýlega kynnti flokkurinn tólfta tilboð flokksins sem kallað var: „Brjótum upp Samherja – Endurheimtum auðlindirnar.“

Samherji í þessu samhengi á við um stórfyrirtæki í sjávarútvegi og gæti einnig átt við fyrirtæki eins og Síldarvinnsluna í Neskaupstað sem Samherji á stærstan hluta í. Í tilboðinu segir m.a.: „Þá leggja Sósíalistar til að útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin verði brotin upp þversum, þannig að sama fyrirtækið geti ekki veitt fiskinn og selt sjálfu sér aflann, unnið fiskinn og selt sjálfu sér afurðirnar og selt síðan sjálfu sér afurðirnar í útlöndum og falið þar gróðann.“


Haraldur Ingi Haraldsson, oddviti Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi, segir að þessi aðferð þekkist víða um heim til að vinna gegn einokun. „Árið 1890 voru fyrstu „antitrust“ lögin sett í Bandaríkjunum og olíufélög brotin upp langsum þ.e.a.s. þau þurftu að skipta sér upp og þversum þ.e.a.s. virðiskeðjan var slitin. Olíufélag mátti ekki eiga olíulind, hreinsunarstöð og bensínstöðvar. Þetta þurfti að vera í sér rekstri. Ástæðan er augljós. Þetta er til að vernda samfélagið gegn einokun og því ofurvaldi, ójöfnuði og pólitískri spillingu sem óhófleg auðsöfnun leiðir af sér. Síðar voru svokallaðir Robber Barons leystir upp og Roosevelt Bandaríkjaforseti skipti upp tæplega 50 fyrirtækjum. Síðasta stóra aðgerðin sem ég man eftir var gegn Microsoft þar sem einokum fyrirtækisins á stýrikerfi í PC vélar var brotin upp 1999,“ segir Haraldur Ingi.

Haraldur Ingi segir að nauðsynlegt sé að Ísland eignast slík lög. „Slík lög eiga að vernda samfélagið gegn yfirdrottnunarvaldi stórfyrirtækja og takið eftir að þetta er hugsun úr kapítalísku skipulagi ekki sósíalísku. Það eru kapítalísk lönd sem hafa beitt þessum lögum eins og Bandaríkin hefur gert, munurinn á þeim og okkur er að þar var þroskaðri skilningur á því hvað einokun, ójöfnuður og ofurvald auðs er skaðlegt fyrir samfélagshagsmunina.“

Síldarvinnslan í Neskaupstað virðist falla undir þetta tilboð Sósíalistaflokksins og aðspurður hvort svo sé segir Haraldur: „Það kemur vel í ljós í öllum okkar stefnum og málflutningi. Þannig að ef það sem ég hef rætt á við um Síldarvinnsluna þá er hún í þessum hópi. Við tölum fyrir nýju kerfi við fiskveiðar þar sem kvótakerfið er lagt niður og kvótinn verði bundinn við byggðirnar. Það kerfi mun bæta hag fiskvinnslufólks, sjómanna og landsins alls,“ segir Haraldur að endingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.