Vilja ákvörðun um Fjarðarheiðargöng í haust

Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar leggur áherslu á að Fjarðarheiðargöng sjáist á nýrri samgönguáætlun sem væntanleg er á Alþingi í haust. Rétt sé að farið verið í göngin strax að loknum Dýrafjarðargöngum.

Þetta kemur fram í áskorun sem fráfarandi bæjarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum í júnímánuði.

Þar er skorað á samgönguráðherra, ríkisstjórn og Alþingi að fylgja eftir undirbúningi að Fjarðarheiðargöngum og síðan framkvæmdum samkvæmt gildandi samgönguáætlun.

Jafnframt þurfi að tímasetja og ákveða framlög til ganganna í samgönguáætlun í haust auk þess að hafa verkefnið til hliðsjónar við endurskoðun fjármálaáætlunar 2019.

Bent er á að Seyðisfjörður sé auk nágrannanna á Borgarfirði eystra eina byggðarlagið þar sem íbúarnir þurfi að fara um háa fjallvegi til að komast inn í almenna vegakerfið. Það sé algjörlega óásættanlegt. Úrbætur séu bæði öryggismál og mikilvæg gátt fyrir ferðaþjónustu þar sem heiðin sé hluti af beinni tengingu Íslands við Evrópu.

Minnt er á ályktun Alþingis frá árinu 201 um að Fjarðarheiðargöng verði næst á eftir Dýrafjarðargöngum. Þau séu langt komin og því ekki eftir neinu að bíða. Þá er minnt á að ályktanir aðalfunda Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sýni samstöðu austfirskra sveitarstjórnarmanna um göngin.

„Verkefnið fer vel saman við yfirlýsingar ríkisstjórnar og áform um uppbygginu innviða í landinu. Þá bendir bæjarstjórn Seyðisfjarðar á að verkefnið er utan þeirra svæða landsins þar sem þensla ríkir og ætti því ekki að vera til þess fallið að raska efnahagslegu jafnvægi á nokkurn máta.

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar vill því enn og aftur hvetja samgönguráðherra, ríkisstjórn og Alþingi til að líta á þær staðreyndir sem liggja fyrir um undirbúning Fjarðarheiðarganga og láta verkin tala.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.