Vilja að Síldarvinnslan endurskoði lokun bolfiskvinnslunnar á Seyðisfirði

Fulltrúar sveitarstjórnar Múlaþings og heimastjórnar Seyðisfjarðar þrýstu á það á fundi með forstjóra Síldarvinnslunnar í gær að fyrirtækið endurskoði eða fresti ákvörðun sinni um að hætta bolfiskvinnslu á Seyðisfirði.

„Þetta var ágætt samtal þar sem við komum því ákveðið á framfæri að við óskum eftir að ákvörðunin verði tekin til endurskoðunar.

Verði ákvörðunin ekki dregin til baka þá viljum við að minnsta kosti að tímasetningin verði endurskoðuð og vinnslunni lokað síðar,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri.

Til fundarins var boðið öllum fulltrúum úr sveitarstjórninni og heimastjórn Seyðisfjarðar. Gunnþór Ingvason forstjóri mætti fyrir hönd Síldarvinnslunnar.

Síldarvinnslan tilkynnti á þriðjudag að til standi að loka vinnslunni í lok nóvember. Fyrirtækið ber við breytum aðstæðum á markaði sem bregðast þurfi við með miklum og dýrum breytingum á vinnslunni á Seyðisfirði sem hún standi ekki undir. Á sama tíma eigi félagið tæknivædda vinnslu í Grindavík sem sé vannýtt.

Um þrjátíu manns missa vinnuna við það. Þeim býðst vinna í annað hvort Grindavík eða Neskaupstað auk þess sem nokkur störf eru í boði við fiskimjölsverksmiðjuna á Seyðisfirði.

Björn segir að á fundinum hafi verið farið yfir sýn beggja aðila á málið en ekkert nýtt hafi komið þar fram. Þá hafi kjörnum fulltrúum gefist kostur á að beina spurningum sínum um málið beint til forstjórans.

Eins var byrjað að ræða mótvægisaðgerðir sem Síldarvinnslan hefur heitið að styðja við til að draga úr áhrifum lokunarinnar á samfélagið á Seyðisfirði. „Við ræddum um að greina valkosti um hvernig bregðast skuli við þess og Síldarvinnslan komi að því með okkur.“

Björn segir að málið verði rætt á fundi byggðaráðs Múlaþings á þriðjudag. Eftir þann fund verði stjórn fyrirtækisins sent formlegt erindi með ósk um endurskoðun. Síðan verði samtalinu um næstu skref haldið áfram. „Það var ákveðið í gær að vera í sambandi eftir þriðjudaginn. Samskiptin eru ágæt þótt við séum ekki sammála.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.