Vilja að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu verði dregin til baka

Fljótsdalshreppur skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra að draga til baka drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu. Víðtæk andstaða virðist við regluna meðal bænda sem gagnrýna ráðherra fyrir samráðsleysi.

Reglugerðin byggir á ákvæði í lögum um landgræðslu frá árinu 2018 þar sem ráðherra er falið að setja reglugerð til að tryggja sjálfbæra landnýtingu. Landgræðslan á að meta ástand lands og út frá því eru útfærðar reglur um hvar búfjárbeit eða umferð fólks og ökutækja er heimil.

Ljóst er að drögin hafa vakið mikil viðbrögð þar sem 88 umsagnir bárust um þau í samráðsgátt stjórnvalda. Frestur til að skila inn umsögnum rann út á föstudag.

Óljóst hver beri kostnaðinn

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps er meðal þeirra sem skilaði inn umsögn. Þar er gagnrýnt að málið hafi verið sett í umsagnarferli án þess að kynna það fyrir stórum hagsmunaaðilum. Sveitarstjórnin telur blasa við að drögin hafi verið unnin án samráðs við helstu hagsmunaaðila.

Þá telur sveitarstjórnin óljóst hverjir beri kostnað af umsjón og eftirliti. Hætta sé á að aukinn kostnaður falli á bændur, sem sé ærinn frekar og gagnrýnt að ekki séu notaðir gagnagrunnar sem þegar eru til staðar um ástand lands. Ljóst sé þess vegna að reglugerðardrögin hafi ekki verið kostnaðarmetin.

Að þessu athuguðu leggur sveitarstjórnin til að drögin verði dregin til baka og farið aftur af stað í víðtæku samráði við hagsmunaaðila og sveitarfélög.

„Ófullnægjandi og órökrétt aðferðafræði“

Sigvaldi Ragnarsson og Halla Eiríksdóttir, bændur á Hákonarstöðum á Jökuldal, gagnrýna forsendur mats á landnýtingunni. Þau telja að verið sé að horfa á óljósar heimildir um ástand í fortíðinni frekar en ganga út frá núverandi ástandi. Með þessu sé horft framhjá breytum og breytingum sem orðið hafi síðustu ár. Með fækkun sauðfjár hafi beit í Jökuldalsheiði haft hverfandi áhrif á þróun gróðurfars þar.

Þau vara einnig við að verið sé að þenja út vald og hlutverk Landgræðslunnar og leggja kostnað á þá sem nýti land með sjálfbærum hætti, til dæmis með að krefjast uppgræðslu óháð beitarálagi. Þau benda á að lagastoðir fyrir ákvæðum í reglugerðinni séu veikar og áætlunin algjörlega ófjármögnun.

„Þau rök sem voru til staðar um nauðsyn uppgræðslu og landgræðslustarfs vegna ósjálfbærrar beitar á 9. og 10. áratug 20. aldar eru úrelt. Drögin fela í ófullnægjandi og órökrétta aðferðafræði og getur verið dulbúið tæki að þvinga fram landgræðsluverkefni þar sem beitarnýting er algjörlega sjálfbær,“ skrifa þau.

Vilja draga úr notkun lífræns áburðar

Kristján Beekman, bóndi í Breiðdal, lýsir þeirri skoðun sinni að eigi landnýting að kallast sjálfbær verði að hætta lausagöngu búfjár.

Eygló Björk Ólafsdóttir, bóndi í Vallanesi á Fljótsdalshéraði, kvittar undir umsögn VOR – félags framleiðenda í lífrænum búskap, enda formaður félagsins. Það fagnar viðleitni til að móta viðmið um sjálfbæra landnýtingu sem sé mikilvægt verkefni til framtíðar.

VOR gagnrýnir að ekki sé tekið fyrir notkun lífræns áburðar, því framleiðsluferli hans sé slíkt að hann geti ekki talist sjálfbær. Gerð er sérstök athugasemd við að ekki megi nota húsdýraáburð nær en 50 metra frá ám og vötnum meðan nota megi tilbúinn áburð í 5-10 metra fjarlægð. Óeðlilegt sé að leggja meiri kröfur á lífræna ræktun með þessum hætti. Þá bendir félagið á að lífræn ræktun sé ekki skilgreind sérstaklega í reglugerðardrögunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.