Vilhelm Þorsteinsson með stærsta farm loðnuvertíðarinnar til þessa

Stærsta farmi loðnuvertíðarinnar til þessa var landað á Seyðisfirði á föstudag þegar Vilhelm Þorsteinsson kom með 3331 tonn að landi. Verksmiðjustjóri segir hráefnið hafa verið afskaplega gott alla vertíðina.

„Verksmiðjan gengur eins vel og kostur er. Við höfum fengið glimrandi gott hráefni allan tímann,“ segir Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði.

Til viðbótar við farminn á föstudag kom Polar Ammassak til Seyðisfjarðar með 2008 tonn í gær. Þá er von á Berki þangað á morgun með um 3000 tonn. „Þeir hafa verið fljótir að fá í og þess vegna er hráefnið sem kemur að landi gott,“ bætir Eggert við.

Nú líður að lokum loðnuvertíðarinnar og viðbúið að skipin séu í sinni síðustu veiðiferð. Að lokum hrygnir fiskurinn og deyr. Samkvæmt yfirliti Loðnufrétta er búið að veiða 76% af útgefnum kvóta.

Veiðiskipin keppast því við þessa dagana að ná því sem hægt er. Þau hafa undanfarna daga verið við Snæfellsnes og nú fyrir hádegið voru Víkingur, Vilhelm Þorsteinsson, Heimaey og Suðurey að veiðum undir Snæfellsjökli auk þess sem Jóna Eðvalds og Venus voru rétt ókomin.

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.