Orkumálinn 2024

Vilhelm Þorsteinsson laus af strandsstað í Neskaupstað

„Skipið er laust af strandstað og nú er bara verið að vinna í að koma því að bryggju en allt gengur það vel,“ segir Daði Benediktsson hjá björgunarsveitinni Gerpi í Neskaupstað.

Fiskiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA strandaði rétt utan við höfnina í Neskaupstað laust eftir hádegi í dag en skipið var á heimleið til löndunar með þúsund tonn af afla þegar það tók niðri á sandbanka örskammt frá höfninni. Töluverður fjöldi fólks fylgdist með af landi enda aðeins spottakorn frá bænum.

Greiðlega gekk að losa skipið á nýjan leik með hjálp björgunarsveitarmanna á bátnum Hafbjörgu og fiskiskipsins Barða NK sem dró skipið af strandstað hratt og vel og þegar þetta er skrifað er verið að snúa skipinu svo það geti lagst að bryggju.

Að sögn Daða er nú verið að koma Vilhelm til bryggju en útlit er fyrir að einhver bilun hafi orðið þegar skipið strandaði enda velþekkti sandbankar á þeim stað sem skipið tók niðri. Engar skemmdir séu sjáanlegar og enginn skipverja hlotið nein meiðsl eftir því sem næst verði komist.

Grétar Örn Sigfinnsson, rekstarstjóri útgerðar hjá Síldarvinnslunni, telur sömuleiðis ljóst að bilun hafi orðið þess valdandi að skipið strandaði en hvers kyns hún sé eigi eftir að koma í ljós. Hann staðfestir að enginn skipverja hafi slasast.

UPPFÆRT:

Samherji á Akureyri, eigandi Vilhelms Þorsteinssonar EA, hefur sent út eftirfarandi tilkynningu:

Laust fyrir klukkan 13:00 er uppsjávarskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, var að koma að hafnarmynninu í Neskaupstaðarhöfn, varð bilun í skrúfubúnaði skipsins með þeim afleiðingum að skipið tók að sigla stjórnlaust aftur á bak og varð síðan vélavana.

Við þetta rak skipið upp að bröttum sandkanti sem er rétt sunnan við hafnarmynnið. Barði NK 120, skip Síldarvinnslunnar, kom strax til aðstoðar og dró Vilhelm að bryggju.

Búið að draga Vilhelm Þorsteinsson EA af strandstað í mynni Norðfjarðar. Bilun í skrúfubúnaði er líkast til um að kenna. Mynd Hjalti Stefánsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.