Orkumálinn 2024

Viking Sky væntanlegt til Seyðisfjarðar

Skemmtiferðaskipið Viking Sky, sem varð vélarvana við strendur Noregs um síðustu helgi, á samkvæmt áætlun að koma fjórum sinnum til Seyðisfjarðar í sumar.

Samkvæmt upplýsingum á vef Seyðisfjarðarhafnar er áætlað að skipið komi 4. og 12. júní og síðan aftur 9. og 17. ágúst.

Seyðisfjörður er fyrsti viðkomustaður skipsins þegar það kemur til Íslands en það leggst einnig að bryggju í Reykjavík, á Ísafirði og Akureyri í þessum ferðum sínum.

Tæplega 500 farþegum var bjargað af skipinu með þyrlum eftir að það varð vélarvana í miklum stormi síðdegis á laugardag. Myndir frá farþegum af húsgögnum og öðrum munum á fleygiferð hafa vakið heimsathygli og atvikið vakið upp spurningar um öryggi siglinga skemmtiferðaskipa á norðurslóðum.

Á sunnudag tókst að koma vélum skipsins í gang á ný og sigla því til hafnar í Molde. Í ljós hefur komið að vél skipsins fékk ekki næga smurolíu. Nánari rannsókn á óhappinu er hafin.

Skipið var sjósett árið 2016 og er því allt hið nútímalegasta. Það er gert út frá Björgvin og þaðan hefst Íslandsferð þess sem telur alls 13 daga með fleiri viðkomustöðum í Noregi og í Færeyjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.