Viðvaranir í gildi til kvölds

Viðvaranir vegna vinds á Austfjörðum gilda til klukkan ellefu í kvöld. Skólahald hefur verið fellt niður á Djúpavogi en er haldið til streitu í Fjarðabyggð. Umfangsmiklar lokanir á vegum eru enn í gildi.

Ekkert verður kennt á Djúpavogi í dag vegna veðurs. Í Fjarðabyggð eru skólar opnir en foreldrar beðnir um að meta hvort þeir sendi börn sín, einkum þau yngri ef ekki er hægt að fylgja þeim í og úr skóla. Enginn skólaakstur er í skólunum í Breiðdal og Stöðvarfirði heldur nemendum kennt í sínum heimaskólum.

Rafmagn komst á innanverðan Jökuldal um klukkan eitt í nótt eftir að vinnu lauk við Hvanná þar sem staur brotnaði um klukkan sex í gærkvöldi. Í Breiðdal komst straumur á um klukkan níu en þar hafði járnplata fokið í spenni.

Rafmagnslaust verður þó í norðurdal Breiðdals í dag vegna viðgerðavinnu milli klukkan þrjú og fjögur í dag. Það sama gildir um Álftafjörð nú milli klukkan átta og níu um morguninn.

Búið er að opna Möðrudalsöræfi að norðanverðu að Jökuldal og Vopnafjarðarheiði. Þar er þó snjóþekja eða hálka. Fjarðarheiði, Fagridalur, Öxi, Breiðdalsheiði, Mjóafjarðarheiði og svo ströndin frá Fáskrúðsfirði suður í Skaftafell er enn lokuð. Enn er mikill vindur eystra, klukkan sjö mældist yfir 50 m/s hviða í Hamarsfirði.

Næstu upplýsingar um flug austur í Egilsstaði verða veittar klukkan 11:15. Flug til Vopnafjarðar frá Akureyri er skráð á áætlun.

Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Austfirði fram til klukkan þrjú í dag. Á þeim tíma er spáð norðvestan 20-28 m/s og hvassara á stöku stað með hviðum yfir 40 m/s. Ekkert ferðaveður er á þessum tíma. Síðan tekur við gul viðvörun til klukkan ellefu í kvöld. Þá er spáð ögn hægari vindi, 18-23 m/s og hviðum yfir 30 m/s. Slíkt veður er varasamt til ferða, einkum á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi.

Á Austurlandi er gul viðvörun í gildi til þrjú í dag. Spáð er norðvestan 18-25 m/s og hviðum yfir 30 m/s. Varasamt er að vera á ferðinni í slíku veðri, einkum á farartækjum sem taka á sig mikinn vind.

Frá Reyðarfirði í gær. Mynd: Gunnar Th. Gunnarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.