Víðtækar afleiðingar af hertum reglum

Nýjar og hertar reglur sem heibrigðisráðherra hefur sett til að bregðast við útbreiðslur Covid-19 munu hafa töluverð áhrif á Austurlandi. Fyrirhuguðum viðburðum um helgina hefur mörgum hverjum verið frestað og veitingaaðilar hafa áhyggjur af því hvernig muni ganga að þjónusta ferðafólk sem er á svæðinu.

Fyrir liggur að öllum viðburðum sem fyrirhugaðir voru í Fjarðarborg á Borgarfirði um helgina, svo sem hagyrðingakvöldi, hefur verið aflýst sem og tónleikum sem vera áttu á morgun á Tehúsinu á Egilsstöðum. Þá munu tónleikar Ljótu hálfvitanna, Emmsjé Gauta og Óskars Péturssonar og Eyþórs Inga, sem halda átti í Valaskjálf á Egilsstöðum um helgina, ekki fara fram. Allar líkur eru þó á að tónleikar Dúndurfrétta verði haldnir þar í kvöld og fleiri dæmi eru um viðburðahald á landinu þar sem hertar reglur taka ekki gildi fyrr en um hádegi á morgun.


Áhyggjur veitingaaðila

Það að tveggja metra reglan taki aftur gildi sem regla mun hafa mikil áhrif á rekstur veitingastaða um allt land. Borðum mun fækka verulega á flestum stöðum, jafnvel um 3/4 eða meira í einhverjum tilfellum. Veitingaðili sem Austurfrétt ræddi við taldi ástæðu til að hafa áhyggjur af því að hreinlega gæti orðið erfitt að þjónusta það ferðafólk sem þegar er á svæðinu um mat. Þegar straumurinn var sem mestur fyrir nokkrum vikum hafi þurft að vísa fólki frá í hrönnum og því hafi hreint ekki verið vel tekið af gestum. Starfsfólk hefði þurft að sæta ótrúlegum svívirðingum á þeim tíma.

Nú dragi verulega úr afgreiðslugetu flestra staða og hætt við að sambærilegt ástand geti skapast. Þá sé ekki heldur hægt að gera ráð fyrir því að allt það ferðafólk sem er á svæðinu geti auðveldlega sótt í matvöruverslanir, sem nú þurfi væntanlega einnig að herða reglur og takmarka fjölda sem er inni í verslunum á hverjum tíma.


Óvíst með söfn og sýningar

Í reglunum er sérstaklega hvatt til þess að opinberir staðir á borð við skemmtistaði og söfn geri hlé á starfsemi sinni ef ekki sé hægt að tryggja fjarlægð milli gesta. Austurfrétt ræddi við nokkra forsvarsaðila safna og sýninga. Pétur Sörensson forstöðumaður Safnastofnunar Fjarðabyggðar segir enga ákvörðun liggja fyrir en farið sé yfir málið með stjórnendum hvers safns fyrir sig. „Aðstæður eru svolítið misjafnar. Í Neskaupstað ætti til að mynda ekki að vera mikið mál að tryggja fjarlægðir en það getur verið erfiðara annarsstaðar, svo sem í Stríðsárasafninu og í Franska spítalanum,“ segir Pétur og tiltekur einnig að þau muni taka sér smá tíma í að meta stöðuna.

Steingrímur Karlsson á Óbyggðasetri Íslands í Fljótsdal tók í svipaðan streng. Verið væri að meta stöðuna en húsnæði þeirra væri vissulega ekki stórt og það gæti orðið áskorun að tryggja sóttvarnir í samræmi við þessar nýju reglur. Báðir nefndu þeir einnig að líklega muni draga verulega úr straumi gesta upp úr helginni sem hafi áhrif á þær ákvarðanir sem teknar verða.

Elsa Guðný Björgvinsdóttir, forstöðumaður Minjasafns Austurlands á Egilsstöðum, kvaðst reikna með því að safnið verði opið áfram. Þar sé tiltölulega auðvelt að halda fjarlægð milli gesta, en fylgst verði með og ekki fleirum hleypt inn í einu en svo að það verði tryggt.


Smærri viðburðir halda sér

Gera má ráð fyrir því að ýmsir smærri viðburðir, þar sem reiknað er með færri en 100 gestum, fari þó fram um helgina. Aðstandendur uppskeruhátíðar LAust í Sláturhúsinu á Egilsstöðum hafa þó brugðist við með því að hafa viðburðinn aðeins fyrir boðsgesti en munu sýna nokkur verk aftur á laugardag fyrir gesti og gangandi. Sýningar á sviðsverkinu Afskekkja í Streitisvita falla niður á föstudag, meðal annars vegna veðurspár en ýmsir listviðburðir sem eru hluti af listahátíðinni Innsævi í Fjarðabyggð verða áfram í boði, svo eitthvað sé nefnt. Hvatt er til þess að fylgjast með upplýsingum um viðburði á samfélagsmiðlum þar sem staðan getur breyst nokkuð ört eftir því sem ákvarðanir eru teknar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.