Orkumálinn 2024

Viðræður ganga vel í Fjarðabyggð

Viðræður Framsóknarflokks og Fjarðalista um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar ganga vel að sögn oddvita Framsóknarflokks. Á Vopnafirði eru engar viðræður hafnar enn.

„Við hófum viðræður í gær, erum á fundum í dag og gerum ráð fyrir að funda áfram næstu daga. Við erum að vinna í málefnasamningi og ýmsum útfærslum,“ segir Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokksins. Hann var staddur á viðræðufundi þegar Austurfrétt náði í hann.

Fjarðalistinn er með fjóra fulltrúa í bæjarstjórninni og gat valið úr þremur framboðum til að mynda meirihluta með. Eftir að hafa fundað með hinum framboðunum var ákveðið að láta reyna á viðræður við Framsóknarflokkinn.

Á Fljótsdalshéraði gerðust hlutirnir hratt í gær og virðist myndun meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðis vera formsatriði eftir að þreifingar síðarnefnda framboðsins við Héraðslista strönduðu á ágreiningi um fráveitumál. Unnið verður í málefnasamningi nýs meirihluta um helgina.

Á Vopnafirði hafa ekki verið neinar viðræður í gangi. Hvorki þar, né annars staðar á Austurlandi, eru kjörnir fulltrúar að aðalstarfi og þurfti lykilfólk frá framboðunum að sinna öðrum skyldum fyrri hluta vikunnar.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er von á að hreyfing komist á málin eftir kvöldið eða um helgina. Útlit er fyrir að Betra Sigtún og Framsóknarflokkur, sem mynduðu meirihluta í byrjun desember, taki stöðuna áður en lengra verður leitað. Samfylkingin á einnig fulltrúa í sveitarstjórninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.