Viðbúið að Reyðarfjörður verði án rafmagns fram á nótt

Verið er að flytja varaafl og varahluti víða af landinu til Reyðarfjarðar eftir að aflspennir í aðveitustöðinni á Stuðlum gaf sig á áttunda tímanum í morgun. Afl kemst þar vart á fyrr að einhverju leyti fyrr en seint í dag og ekki af fullu fyrr en í fyrsta lagi í kvöld.

Húshitun á Reyðarfirði er með rafmagni og því þarf 6-8 varaaflvélar til að halda þar uppi fullu afli. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik er hafinn flutningur á slíkum vélum víða að.

Slíkt tæki tíma við eðlilegar aðstæður, hvað þá nú þegar vegir eru lokaðir vegna snjóa. Rarik er því í samvinnu við Vegagerðina um að moka vegi þannig hægt verði að koma varaaflvélunum á staðinn.

Síðan tekur tíma að gangsetja vélarnar og tengja þær við rafveitukerfið. Því verður það vart fyrr en seint í dag sem hægt verður að byrja að byggja upp afl fyrir Reyðarfjörð og ólíklegt að allir íbúar verði komnir með rafmagn fyrr en seint í kvöld eða nótt. Væntanlega verður byrjað á íbúabyggðinni þar sem vinnutími á Mjóeyrarhöfn verður trúlega búinn þegar rafmagn fer að komast á.

Rafmagnið fór af klukkan 7:40 í morgun. Svo virðist sem spennir í aðveitustöðinni að Stuðlum í botni fjarðarins, sem breytir úr 66 í 11 KV spennu, hafi gefið sig.

Slíkur spennir er mikið flykki, vegur um 40 tonn. Varaspennir er staðsettur á Akureyri og þarf að koma honum austur. Til að bæta gráu ofan á svart er hann ekki alveg eins og sá sem bilaði í morgunn þannig að vandasamara er að tengja hann við og gangsetja.

Íbúum Reyðarfjarðar er því ráðlagt að búa sig undir að rafmagnslaust verði fram á nótt, ef mjög illa gangi þar til í fyrramálið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.