
Víða ríflegar hækkanir á fasteignamati
Fasteignamat hækkar ríflega víða á Austurlandi á næsta ári, samkvæmt því mati sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf út í gær. Mestar hækkanir á einstökum liðum eru á Seyðisfirði og Eskifirði.Á Seyðisfirði hækkar fasteignamat á sérbýli um 48%. Á Eskifirði er kippurinn í fjölbýli, upp um 41%.
Einnig er vert að benda á hækkun fasteignamats á Breiðdalsvík. Þar hækkar mat sérbýlis um 33,4% og skrifstofuhúsnæðis um 26,5%. Að sama skapi lækkar mat verslunarhúsnæðis þar og á Stöðvarfirði. Það eru einu lækkanirnar sem sjást á Austurlandi.
Heilt yfir hækkar fasteignamat á Austurlandi og Austfjörðum um 12-19% fyrir íbúðarhúsnæði en 4-6% fyrir verslunarhúsnæði.