Orkumálinn 2024

Víða hitamet á Austfjörðum

Dægurhitamet féllu víða á Austurlandi í hitabylgjunni sem gengið hefur yfir landið síðustu daga. Nokkur þeirra voru yfir hæsta hitastigi sem áður hefur mælst hérlendis í desember.

Frá þessu greinir Trausti Jónsson, veðurfræðingur, á bloggsíðu sinni. Gamla hitametið var 18,4 gráður, frá Sauðanesvita þann 14. desember árið 2001.

Í gær fór hitinn mest í 19,7 stig á Kvískerjum í Öræfum. Hann fór einnig yfir gamla metið á tveimur austfirskum veðurstöðvum, annars vegar mældust 19 gráður á Borgarfirði í gærmorgunn, hins vegar í 18,7 stig í Vestdal við Seyðisfjörð

Samkvæmt samantekt Trausta féllu dægurhitamet á meira en 200 stöðvum víða um land, langflest á mánudaginn. Í þeim hópi var sjálfvirka stöðin á Brú á Jökuldal þar sem hitinn fór í 11,3 gráður. Þar hefur reyndar áður mælst 12 stiga hiti á mannaðri stöð.

Trausti fer einnig yfir fleiri áhugaverða þætti í veðurfarinu síðustu daga. Þannig ber hann saman hitann í Vestdal og uppi á Gagnheiði, en um 850 metra hæðarmunur er á stöðvunum. Trausti bendir á að hitinn sé jafnari uppi á heiðinni og meira segja um stund hærri, enda heitt loft yfir landinu ástæða hlýindanna. Sjaldgæft er hins vegar að slík hlýindi nái niður til landsins á þessum árstíma.

Þá bendir hann einnig á að meðal annars á Borgarfirði hafi hlýnað mjög snögglega. Það gerist þegar vindur hafi farið af stað og hreinsað kalt loft úr neðri lögum. Á Seyðisfirði fór hitinn strax í 10 stig klukkan sex í gærmorgunn en ekki fyrr en átta um kvöldið á Borgarfirði. Á síðarnefnda staðnum hafi tekið lengri tíma að hreinsa burtu kalda loftið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.