„Við vorum töluvert heppnari hér en á Reyðarfirði“

„Vandamálið hér var fyrst og síðast hversu mörg tré í bænum brotnuðu og einhver þeirra féllu á hús án þess þó að valda neinum skemmdum að ráði,“ segir Grétar Helgi Geirsson, formaður björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði.

Nokkur hópur björgunarsveitarmanna frá Geisla fór yfir á Reyðarfjörð til aðstoðar þar þegar líða fór á daginn í gær en verkefni þeirra sem eftir voru var að huga að föllnum trjám sem Grétar segir mikið hafa verið um.

„Við vorum töluvert heppnari hér en á Reyðarfirði þar sem mesti hvellurinn varð og olli þar miklu tjóni. Hér varð bálhvasst líka auðvitað en ívið minna en hjá nágrönnum okkar. Það urðu engar skemmdir mér vitandi á bílum, húsum eða öðrum hlutum. Bæjarbúar voru vel undirbúnir og flestir búnir að koma bílum og munum í gott skjól áður en mesti hvellurinn varð.“

Mikið hefur verið plantað af trjám á Fáskrúðsfirði undanfarin ár og áratugi og góð tíð orðið þess valdandi að þau skjótast hratt upp á við að sögn Grétars.

„Þetta var töluverður fjöldi trjáa sem brotnaði eða rifnaði upp með rótum. Mig grunar að ástæðan sé hversu grunnt er niður á klappir og slíkt hér þannig að rótarkerfi þeirra ná ekki mjög djúpt. Þess vegna falla þau tiltölulega fljótt ef það fer að blása með þeim hætti sem gerðist í gær. Þetta sannarlega eitthvað sem þarf að hafa auga með í framtíðinni.“

Mikill trjágróður prýðir orðið Fáskrúðsfjörð en ofsaveður gærdagsins fór illa með allmörg þeirra trjáa eins og sést á þessari mynd. Mynd Stefán Þór Jónsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.