„Við höfum enga stjórn á útbreiðslu lúpínu“

Þrátt fyrir töluverða baráttu margra aðila um margra ára skeið að hefta útbreiðslu Alaskalúpínu hér austanlands sem víðar í landinu hefur sú barátta borið lítinn árangur að mati plöntuvistfræðings.

Guðrún Óskarsdóttir, plöntuvistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, hófst handa við það verkefni síðasta sumar að kortleggja gróðurframvindu í lúpínubreiðum hér í fjórðungnum en slíkt hefur aldrei verið gert áður með skipulögðum hætti. Guðrún kynnti frumniðurstöður sínar nýverið en um langtímaverkefni er að ræða og engin skýr svör hægt að draga að svo stöddu.

Í máli hennar kom reyndar fram að öll barátta gegn útbreiðslu lúpínu væri erfið. Plantan er afar harðgerð, kappsöm og dreifir sér óhikað á úrkomusöm sem þurr svæði. Guðrún reyndar telur líklegt að plantan verði mun algengari í löndum Austurlands í framtíðinni því veldisvöxtur hennar er mikill og ýmsir utanaðkomandi þættir gætu gert henni auðveldar fyrir að dreifa sér. Þar geta loftslagsbreytingar spilað hlutverk en hlýrra veðurfar gæti auðveldað lúpínunni að fjölga sér. Annað sem hér skiptir máli er fækkun sauðfjárbúa og bústofna en það er sauðfé á beit sem einna helst heldur aftur af þessari kappsömu plöntu.

„Gróðurframvinda í lúpínubreiðum á Austurlandi var á upphafsárum svipuð milli svæða, lúpína jók þekju sína hratt fyrstu árin eftir landnám og myndaði víðast hvar þéttar breiður og fjölbreytni æðplöntutegunda minnkaði. Lúpína hörfaði með tímanum þar sem skilyrði voru hvað óhagstæðust fyrir hana, á melkollum, en einnig þar sem stórvaxnar, köfnunarefnissæknar tegundir, aðallega skógarkerfill, en einnig ætihvönn, yfirgnæfðu hana. Þar má búast við því að skógarkerfill yfirgnæfi lúpínuna með tímanum og verði einráður, en ekki er ljóst hversu lengi hann viðhelst. Á öðrum svæðum komu ekki fram nein skýr merki um hörfun lúpínu í rannsókninni og á öllum svæðum virtist hún vera að auka útbreiðslu sína.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.