„Við erum hér til að vinna með samfélaginu“

Bílstjórar sem keyra fyrir Sæti hópferðir, fyrirtækið sem sér um skólaakstur á Fljótsdalshéraði, eru nær allir komnir í sjálfskipaða sóttkví eftir að skólabílstjóri fyrirtækisins greindist með Covid-19 smit í gær. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir starfsmenn þess hafa lagt sig fram í sóttvörnum og vonast til að íbúar sýni erfiðum aðstæðum skilning.

„Við viljum skapa jákvæða umræðu og höfða til skynseminnar því okkur hefur fundist hún vera neikvæð. Við erum hér til að vinna með samfélaginu,“ segir Hlynur Bragason, framkvæmdastjóri Sæta um yfirlýsingu sem hann birti í Facebook-hópi fyrir íbúa á Fljótsdalshéraði.

Í yfirlýsingunni segir að frá því að skólaakstur hófst í haust hafi fyrirtækið lagt sig fram um að hindra útbreiðslu Covid-19 smit, meðal annars snemma ákveðið að bílstjórar væru með grímur þegar þeir ækju með börn. Þá hafi spritt verið til staðar fyrir farþega og gætt að því að sótthreinsa alla snertifleti samkvæmt reglum.

Þá kemur fram að bílstjórar þess hafi virt tilmæli yfirvalda um að ferðast ekki út fyrir Austurland vegna virðingar og trúmennsku fyrir farþegum.

Bílstjórar í sjálfskipaða sóttkví

Í gærkvöldi var staðfest að skólabílstjóri hjá Sæti hefði greinst með veiruna. Í tilkynningunni segir að fyrirtækið hafi tafarlaust haft samband við þær stofnanir sem þurfti að láta vita, þannig orðið fyrra til að tilkynna um atburðinn og haft forskot í að byrja að vinna að lausnum.

Enn er óljóst hvernig bílstjórinn smitaðist en allir bílstjórar fyrritækisins hafi farið í sjálfskipaða sóttkví og fengið sýnatöku. Sú ráðstöfun standi þar til niðurstöður seinni sýnatöku liggja fyrir, en hún verður ekki fyrr en á föstudag. Aðeins bílstjóri strætisvagnsins á Egilsstöðum og Fellabæ er ekki í þeim hópi en hann átti engin samskipti við þann sem veiktist. Hlynur segir búið að manna akstur út vikuna í stað þeirra sem eru í sóttkví.

Neikvæð skilaboð í kjölfar smitsins

Í niðurlagi yfirlýsingarinnar er komið inn á að fyrirtækinu hafi borist til eyrna dapurlegar athugasemdir sem engan vegin eigi rétt á sér. Skólabílstjórar beri ábyrgð á börnum í ferðum milli skóla og heimilis við ýmsar aðstæður. Þess vegna sé mikilvægt að foreldrar og forráðafólk gæti að orðum sínum og passi sig á að grafa ekki undan trausti barna gagnvart akstrinum með ógætilegum eða vanhugsuðum orðum. Enginn ætli sér að veikjast en því miður gerist það.

Í samtali við Austurfrétt sagði Hlynur að fyrirtækinu hefðu borist neikvæð skilaboð í kjölfar smitsins. Hann vildi þó ekki fara nánar út í hvað í þeim fælist heldur vonast til að upplýsingar frá fyrirtækinu gerðu umræðuna jákvæðari og efldu nauðsynlega samstöðu í samfélaginu.

Mynd: Sæti hópferðir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.