„Við verðum bara að skapa eitthvað sjálf“

„Hugmyndina hefur alltaf verið til staðar þó svo hún hafi ekki orðið að veruleika fyrr en nú,“ segir Gillian Haworth, formaður Sinfóníuhljómsveitar Austurlands sem stofnuð var í byrjun maí.

„Í þau skipti þegar allir hljóðfæraleikarar á Austurlandi, ásamt lengra komnum nemendum, koma sama við ákveðin tilefni, finnum við alltaf hvað þetta er skemmtilegt og viljum spila meira saman. Hingað til höfum við ekki haft neinn vettvang en nú mun það breytast.“

Marmiðin eru skýr
Dillý segir markmið sveitarinnar vera tvíþætt, annars vegar að gefa tónlistarfólki á Austurlandi tækifæri til að styrkja, auðga og efla fjölbreytt menningalíf á svæðinu og hins vegar að gefa lengra komnum nemendum tilefni til að spila í sinfoníuhljómsveit og efla færni í samspili. Einnig eykur tilurð hljómsveitarinnar möguleika kóra á Austurlandi á að fá verk sín flutt, stuðlar að aukinni austfirskri tónsköpun og skapar vettvang fyrir einleikara að koma fram með sveitinni. Síðast en ekki síst sér hljómsveitin fyrir sér aðkomu að fræslustarfi fyrir skóla.

Samtal við samfélagið næsta skref
Dillý segir næstu skref vera að kynna verkefnið. „Við þurfum að ná til áhugafólks, bæði tónlistarfólks, bakhjarla og þeirra sem vilja vera í klappliðinu. Við hugsum Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði sem okkar heimavöll þar sem hún er í miðjunni og hljómburður hússins okkur í hag. Okkur dreymir um að flakka líka um vitum ekki hvort það er gerlegt og þess vegna er svo mikilvægt að eiga þetta samtal við fólkið í samfélaginu í upphafi.

Koma til með að þurfa að stoppa í götin
Dillý segir fyrstu tónleikana verða í haust og stefnan sé svo tekin á að halda fjóra mismunandi viðburði á ári. „Líklega verða fyrstu tónleikarnir litlir og krúttlegir. Við erum ekki að blekkja okkur sjálf og munum þurfa að fá lánað tónlistarfólk annars staðar frá í einhverjum tilfellum því það eru mjög fáir tónlistarmenn á Austurlandi. Við eigum ekki nóg af strengjahjóðfæraleikurum en helling af blásurum, þannig að þetta mun snúast um að stoppa í göt hér og þar. Þetta verður svona „gúmmíhljómsveit“ – stundum lítil og stundum stór. Við erum ekkert að fara að taka verkefni sem við ráðum ekki við.“

Sinfóníuhljómsveit Íslands sinnir landsbyggðinni lítið
Dillý segir verkefnið mikilvægt. „Þetta er hlutverk sem Sinfóníuhljómsveit Íslands átti að sinna, að sinna landsbyggðinni, en það hefur afar sjaldan gerst. Síðast var hún veðurteppt og gat í annað skipti aðeins komið í mýflugumynd þannig að það er engin nánd við svæðið. Þegar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands byrjaði var hún í öflugu samstarfi við okkur og það var alveg geggjað. Það er nánast dottið upp fyrir núna og sækir hún meira suður vegna velgengni hjá henni.“

Hvatning fyrir tónlistarfólk á svæðinu
Dillý segist viss um að Austurland fari að ala af sér fleira tónlistarfólk. „Einnig verður þetta skref hvatning fyrir tónlistarfólk annars staðar að setjast að á svæðinu ef vettvangur er fyrir hendi. Þegar maður horfir á svæðið og íbúafjöld Austurlands er þetta verkefni algerlega óraunhæft en þetta er einhver löngun sem við ætlum okkur að vinna með. Hún kemur kannski ekki síst til vegna þess að við erum langt í burtu frá öllu, eigum ekki kost á að fara á tónleika þegar okkur langar til og þá verðum við bara að skapa eitthvað sjálf.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.