„Við verðum að bera ábyrgð á okkar rusli fram á síðustu stundu“

Nýrri og glæsilegri flokkunarsamstæðu hefur nú verið komið fyrir í miðbæ Djúpavogs en styrkur frá Uppbyggingarsjóði Austurlands hlaust til verksins í tengslum við Cittaslow-stefnu hreppsins.


Á heimasíðu Djúpavogshrepps segir að samstæðan sé góð leið til þess að halda bænum hreinum og að hún sé fullkomin birtingarmynd Cittaslow hugmyndafræðinnar. Það var heimamaðurinn og listamaðurinn Þór Vigfússon sem fenginn var til þess að hanna samstæðuna og vann hann að verkinu í Bræðslunni. Þór er sjálfur mikill flokkunarsinni og verkefnið átti því vel við hann.

„Ég var beðinn um að koma með einhverja hugmynd að þessu en þetta er alls engin uppfinning hjá mér. Ég ákvað bara að hafa þetta eins einfalt og hægt er,“ segir Þór en hefðbundnar ruslatunnur eru inn í samstæðunni til að taka við ruslinu þannig að einfalt er að tæma hana. Efnið var að mestu keypt í byggingarvöruverslun en þó er þakið úr endurunnu efni, auk þess sem Þór ákvað að tyrfa það og fellur stæðan vel inn í umhverfið.

Þór segir að bæjarbúar og gestir hafi tekið verkefninu vel. „Ég held að þetta sé notað, þó svo ég sjái að stakar tunnur sem eru á staurum stutt frá séu alltaf fullar. Ég held kannski að fólk sé ennþá hrætt við að flokka en einnig er boðið upp á að setja í óflokkað í stæðunni.“

Vandist flokkun í Hollandi
Þór er sjálfur vanur flokkun en hann bjó í Hollandi á áttunda áratugnum þar sem hann vandist því að allt væri flokkað. „Ég var svo aftur þarna út í kringum aldamótin og þar var sama kerfið ennþá. Mér finnst þetta ganga frekar hægt hérlendis þó að þetta sé að koma. Að mínu viti á bara ekkert annað að vera í boði en að flokka, þetta gífurlega mikla magn sem er urðað er skammarlegt.“

Ástandið hefur breyst til batnaðar
Þór segist halda að almenningur sé þó farinn að henda minna rusli í náttúruna en áður fyrr. „Ég held að það sé nú bara orðið eins og talað er um í laxeldinu, einhverjar slysasleppingar. Það er ekki langt síðan maður mætti bílum á Breiðamerkursandi þar sem föskum eða dósum var hent út um gluggana. Á hvaða forsendum þurfti að losna við þetta úr bílnum? Af hverju var í lagi að hafa það í bílnum meðan flaskan var full en ekki tóm? Við verðum að bera ábyrgð á okkar rusli fram á síðustu stundu og þetta hefur sem betur fer breyst gífurlega til batnaðar á síðustu árum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar