Orkumálinn 2024

VG og Samfylking stærst og jöfn

Samfylkingin og Vinstrihreyfingin – grænt framboð mælast stærst og jöfn í nýrri könnun á fylgi stjórnmálaflokkanna í Norðausturkjördæmi. Píratar vinna mann af Miðflokki en mjótt er á mununum.

Samfylkingin og VG mælast með 17,4% fylgi í kjördæminu í könnun Maskínu sem greint er frá á Vísi. Hvor flokkur fengi tvo menn kjörna, líkt og þeir hafa í dag en breytingin er sú að báðir þingmenn Samfylkingarinnar verða kjördæmakjörnir, meðan annar þeirra var landskjörinn síðast.

Samfylkingin bætir við sig 3,5 prósentustiga fylgi eða fimmtungi miðað við síðustu kosningar. VG tapar 2,5 prósentustigum eða 13%.

Sjálfstæðisflokkurinn fær 16,5% og Framsóknarflokkurinn 14,7%. Báðir halda sínum tveimur þingmönnum en meðan Sjálfstæðisflokkurinn tapar fjórðungi fylgis síns bætir Framsóknarflokkurinn lítillega við sig.

Fylgið hrynur af Miðflokknum sem mælist með 11,8% nú, samanborið við 18,6%. Það þýðir að hátt í 40% þeirra sem kusu flokkinn síðast hyggjast leita annað nú. Þar með tapar flokkurinn öðrum þingmanna sinna.

Tíu þingmenn eru í Norðausturkjördæmi, þar af er einn landskjörinn. Sé aðeins horft til úrslitanna í kjördæminu fellur tíunda og síðasta þingsætið Pírötum í skaut en þeir hljóta 6,2% í könnuninni samanborið við 5,5% síðast. Skammt undan er Viðreisn með 6% samanborið við 2,1% síðast.

Ekki munar miklu í baráttunni um síðasta þingsætið. Annar maður Miðflokks er þar á eftir, síðan þriðju menn Samfylkingar og VG áður en röðin kemur að fyrsta manni Sósíalistaflokksins, sem mælist með 5,7%. Ekki er heldur sérlega langt í þriðja mann Sjálfstæðisflokksins.

Flokkur fólksins nær ekki manni inn en mælist með sama fylgi og fyrir fjórum árum, 4,3%.

Gögnin í könnuninni koma úr þremur mælingum sem Maskína gerði fyrir Vísi í desember 2020, janúar 2021 og í febrúar 2021. Það þýðir að enginn flokkanna í kjördæminu var búinn að staðfesta efstu frambjóðendur áður en könnunin var gerð. Svör úr Norðausturkjördæmi voru 568 talsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.