Vestmannaey gripin við veiðar í Skápnum

Vestmanney, skip Bergs-Hugins dótturfélags Síldarvinnslunnar, var í gær staðið að meintum ólöglegum veiðum í Skápnum, hafsvæði úti fyrir Austfjörðum. Landhelgisgæslan skipaði skipinu að snúa til hafnar þar sem lögregluskýrsla var tekin af skipstjóranum.

Í svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurnar er staðfest að íslenskt togskip hafi um hádegi í gær verið staðið að meintum ólöglegum veiðum innan lokaðs svæðis austur af Glettingi.

Svæðið kallast í daglegu tali Skápurinn. Sjávarútvegsráðherra bannaði veiðar með fiskibotnvörpu þar með reglugerð sem tók gildi 1. júlí síðastliðinn.

Þótt Landhelgisgæslan staðfesti það ekki var umrætt skip Vestmannaey VE-054. Það sýnir ferill skipsins á MarineTraffic og frásagnir sjónarvotta auk þess sem skipstjórinn játaði á heimasíðu Síldarvinnslunnar í gær hvar hann var að veiða.

„Núna erum við inni í Skáp og það er áfram fínasta nudd en engin kraftveiði. Stefnt er að því að landa aftur í Neskaupstað á fimmtudaginn,“ sagði skipstjórinn Birgir Þór Sverrisson.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, var send austur til að kanna málið eftir að tilkynningar um veiðarnar bárust. Sigmaður þyrlunnar fór um borð í skipið, skoðaði afladagbók og skipaði skipstjóranum að halda til hafnar til frekari rannsóknar.

Lögregla tók skýrslu af skipstjóranum eftir að komið var til Neskaupstaðar um klukkan sex í gær. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst ber hann því við að hafa ekki vitað af lokuninni. 

Í svari Landhelgisgæslunnar er brýnt fyrir skipstjórum að kynna sér vel upplýsingar á vef Fiskistofu um lokuð svæði áður en haldið er til veiða.

Austurfrétt óskaði eftir viðbrögðum Síldarvinnslunnar vegna málsins og upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi vegna þess. Báðar óskuðu eftir að fá að fá spurningarnar skriflega og svara þeim þannig.

Samkvæmt lögum um fiskveiðar má gera veiðarfæri og afla skipa sem staðin eru að ólöglegum veiðum upptækan, eða fjárhæð sem nemur verðmæti þeirra. Í svari Landhelgisgæslunnar kemur fram að ekki hafi verið farið fram á haldlagningu heldur að gert verði mat á verðmæti aflans.

Brot geta einnig varðað fjársektum eða tímabundinni sviptingu veiðileyfis.

Vestmannaey landaði í Neskaupstað í fyrradag og hélt aftur til veiða. Mynd: Smári GeirssonDemo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.