„Verulega neikvætt ef Íslendingar meina eitthvað í loftslagsmálum“

Landsvirkjun hefur ákveðið að hefja strax skerðingu á orku til fiskimjölsverksmiðja. Útlit er því fyrir að öll vertíðin verði keyrð á olíu. Framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar segir vont að fá engan fyrirvara en það leysist.

„Við ætlum að setja bræðsluna í gang í dag en fengum að vita það í gær að við fáum ekkert rafmagn. Það var fundað með okkur nýverið þar sem okkur var sagt að búa okkur undir í skerðingu í vetur. Síðan lásum við í Morgunblaðinu á föstudaginn að skerðingin yrði 75% í janúar.

Þegar við báðum um rafmagn í gærmorgun fengum við þau svör að ekki væri hægt að afgreiða það. Þetta þýðir að við förum beint yfir í olíu, sem er mjög neikvætt,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Lág vatnsstaða og flutningskerfi

Í yfirlýsingu Landsvirkjunar frá í gærkvöldi segir að ákveðið hafi verið að hefja skerðinguna til stórnotenda með skerðanlega skammtímasamninga strax. Undir það falla bræðslurnar en líka gagnaver og álver auk þess sem öllum nýjum óskum um orkukaup vegna rafmynta hafi verið hafnað.

Þar eru raktar helstu ástæður skerðingarinnar, rafmagn frá öðrum framleiðanda sem koma átti strax inn í kerfið frestist um viku, full vinnsla í Vatnsfelli dugi ekki til þess að halda uppi orkuframleiðslu á Þjórsársvæðinu, byrjað sé að hleypa framhjá Vatnsfelli vegna lágrar vatnsstöðu í Krókslóni en þar þurfi að minnka vinnslu og þar með sölu. Að auki bilaði vél í Búrfelli sem kemst ekki í lag fyrr en í vor.

Þá er einnig komið inn á flutningskerfið, en takmarkanir í því eru taldar draga úr vinnslugetu orkukerfisins um 500 GWh. Búið sé að fullnýta getuna til að flytja orku frá Norðausturlandi til álagspunkta á Suðvesturlandi en kerfið ráði ekki við að flytja alla þá orku sem hægt væri að færa milli landshluta. Þannig hafi á tíu dögum í haust runnið orka sem nemur ársnotkun fiskimjölsverksmiðjanna ónýtt úr Hálslóni. Þá er tekið fram að ójöfn dreifing góðs veðurs í sumar auki á áhrifin.

Losa á við 10% fólksbílaflotans

Áætluð aflþörf fiskimjölsverksmiðjanna í landinu er 90-100 MW á sólarhring. Henni verður nú mætt með olíubrennslu en búast má við að þær þurfi 300 tonn á sólarhring. Miðað við að vertíðin standi fram í mars má reikna með að bræðslurnar brenni um 21.000 tonnum, eða 21 milljón lítra, á vertíðinni. Samkvæmt upplýsingum frá Orkusetri losna við það um 66.000 tonn af koltvísýring, ígildi ársnotkunar um 20.000 fólksbíla, um 10% íslenska fólksbílaflotans.

Friðrik Mar segir að þótt fyrirvarinn sé skammur verði málin leyst með olíuna. Mikil vonbrigði séu að þurfa að nota hana. „Verksmiðjurnar eru annar stærstu kaupandi rafmagns í landinu, aðeins stóriðjan er stærri. Við fjárfestum í orkuskiptum í bræðslunni fyrir tíu árum, það kostaði okkur 400 milljónir króna á sínum tíma.

Þótt undirbúningurinn sé knappur þá munum við leysa olíukaupin. Það að verksmiðjurnar eyði 300 tonnum af olíu á sólarhring er ekkert smáræði. Ef fólk meinar eitthvað í loftslagsmálum þá er þetta verulega neikvætt. Meina menn eitthvað með orkuskiptum ef ekki er vilji til að auka við orkuframleiðsluna?“ segir Friðrik Mar sem vonast eftir viðræðum við Landsvirkjun um einhverja orku á vertíðinni.

Skipin koma inn eitt af öðru

Hún hófst í gærmorgunn þegar Víkingur kom til hafnar á Vopnafirði. Bjarni Ólafsson fylgdi svo í kjölfarið í Neskaupstað, Venus kom til Vopnafjarðar um klukkan tvö í nótt og Aðalsteinn Jónsson til Eskifjarðar rúmlega sjö í morgun. Búast má því við að loðnuveiðiskipin komi til landsins eitt af öðru.

Hvað Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar varðar, þá fór það til Noregs til að sækja loðnunót en er á kolmunnaveiðum austur af Færeyjum á leiðinni heim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.