Verðmætt gagnasafn um samfélagið okkar: Austurbrú tekur við Sjálfbærniverkefninu

austurbru_sjalfbaerni_0009_web.jpg
Austurbrú hefur tekið við umsjón Sjálfbærniverkefnis Alcoa og Landsvirkjunar á Austurlandi af Þekkingarsetri Þingeyinga. Verkefnisstjórinn segir að verið sé að þróa verðmætt og einstakt gagnasafn. 

Markmið verkefnisins er að styðja við hugmyndafræði um sjálfbæra þróun samfélagsins. Samningurinn þýðir að vinna við verkefnið m.a. gagnaöflun, úrvinnsla, kynning og fleira færist til Austurbrúar. 

Því var komið á laggirnar árið 2004 í upphafi framkvæmda við byggingu álvers Fjarðaáls á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjunar. Fulltrúar ýmissa hópa völdu sameiginlega þætti sem snúa að árhrifum framkvæmdanna, bæði á Austurlandi og á landsvísu.

Vísarnir unnir í sameiningu 
 
„Menn ræddu um hvaða væntingar þeir hefðu, af hverju þeir hefðu áhyggjur og þróuðu vísana meðal annars út frá því. Það styrkir vísana að þeir eru ekki staðlaðir heldur hannaðir fyrir svæðið. Þeim er fylgt mjög nákvæmlega, það er erfitt að breyta þeim eftirá og það styrkir verkefnið. Þeir snúast um hvað á að mæla og hvernig, ekki að meta hvort niðurstöðurnar séu jákvæðar eða neikvæðar,“ segir Geir Sigurpáll Hlöðversson, framkvæmdastjóri umhverfismála hjá Fjarðaáli.

Vísarnir eru 45. Meðal annars er fylgst með þróun í atvinnuþátttöku fólks á svæðinu, þróun fasteignaverðs, fjárhagsstöðu sveitarfélaga, gæðum skóla, almennri velferð borgaranna, uppsöfnun aurs við Hálslón, loftgæðum og ástandi heiðargæsa.

Alcoa og Landsvirkjun greiða fyrir vinnu við verkefnið og hafa skuldbundið sig til þess á meðan álverið starfar. Austurbrú safnar saman gögnunum, sem koma frá Alcoa, Landsvirkjun og stofnunum á borð við Hagstofuna, gerir þau aðgengileg á vefnum sjalfbaerni.is og kynnir verkefnið.
 
Ítarleg gagnasöfnun 
 
Guðrún Á. Jónsdóttir sem stýrir verkefninu hjá Austurbrú vonast til að til verði verðmætt gagnasafn sem nýtist bæði íbúum Austurlands og vísindamönnum. „Það er mjög sjaldgæft að gögnum sé safnað yfir svona langan tíma. Þannig teljum við að þetta geti orðið mjög verðmæt gögn sem sýni vel áhrif framkvæmdanna á umhverfið og þjóðfélagið í heild. Við vonum að gagnasafn verkefnisins verði hvatning og efniviður til rannsókna á ýmsum sviðum.“

Í fréttatilkynningu Fjarðaáls segir að verkefnið sé „að mörgu leyti einstakt í heiminum því aldri áður hefur jafn umfangsmikil rannsókn verið sett af stað til að kanna langtímaáhrif stórframkvæmda á umhverfi, samfélag og efnahag.“

Í samtali við Austurfrétt sagði Geir Sigurpáll að verkefnið hefði vakið athygli út fyrir landsteinana. „Í gegnum erlend tengsl Alcoa hafa komið hingað háskólahópar sem sérhæft hafa sig í sjálfbærni og þeir hafa verið mjög hrifnir.“

Fleiri verkefni á leið til Austurbrúar 
 
Karl Sölvi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Austurbrúar, fagnar því að stofnunin fái að takast á við verkefnið. Engin ný störf verði til strax hjá henni við verkið en starfsmenn sem fyrir eru nýtist betur.

„Í upphafi starfsins hjá Austurbrú er okkur afskaplega mikilvægt að fá verkefni sem þetta. Austurbrú er að leggja af stað í sína vegferð og stendur í stefnumótun en markmið okkar er að geta valið einvala lið úr okkar hópi sem leysir hratt, örugglega og vel úr þeim verkefnum sem okkur eru falin.“

Árið 2009 var komið á fót sambærilegu verkefni á Norðurlandi eftir að Alcoa og Landsvirkjun gerðu viljayfirlýsingar um samstarf um álver á Bakka við Húsavík. Það samkomulag er út af borðinu og hefur vinnu við Norðurlandsverkefnið verið hætt.

Mynd: Frá undirritun samkomulags á Egilsstöðum í gær. Frá vinstri Sigurður Guðni Sigurðsson, deildarstjóri aflstöðvadeildar Landsvirkjunar, Karl Sölvi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Austurbrúar, og Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.