Verkefni Alþingis að tryggja öllum byggðum tækifæri til þróunar

Alþingi þarf að tryggja samkeppnishæfni byggða með að tryggja bæði að nauðsynlegustu innviðir séu til staðar og að setið sé við sama borð í möguleikum á nýtingu þeirra. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og blikur í efnahagsmálum var meðal þess sem rætt var eldhúsdagsumræðum á Alþingi á þriðjudag.

„En getum við ekki öll verið sammála um að samfélagsleg verðmæti felist í byggð um land allt? Verkefni okkar hér er að tryggja öllum byggðum tækifæri til þróunar. Það gerum við meðal annars með skýrri sýn á uppbyggingu samgangna, fjarskipta og dreifikerfis raforku,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins frá Fáskrúðsfirði í ræðu sinni.

Hún benti á að verið væri að byggja upp innviði með nýrri samgönguáætlun og framundan sé fjarskiptastefna og bætti við að jöfn tækifæri þyrftu að vera til að nýta þá. „ Í samfélagi þar sem þjónusta er samþjöppuð á litlu svæði þarf að tryggja grunninnviði en líka jafnan flutningskostnað innan lands.“ Í því samhengi benti hún á eitt dreifikerfi raforku með sama verði til allra og niðurgreiðsla innanlandsflugs.

Ekki rétt að sömu reglur séu um land og aðrar fasteignir

Í ræðu sinni kom Líneik Anna einnig inn á loftslagsmál, umhverfisvernd og þörf á stefnumörkun um eignarhald á landi.  „Allt land er auðlind. Landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Land nýtist í margt, svo sem til matvælaframleiðslu og sem aðdráttarafl ferðamanna, og landi geta fylgt hlunnindi eins og veiði-, námu- og vatnsréttindi. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi og um hverja aðra fasteign væri að ræða.“

Hún ræddi ennfremur málefni barna en hún situr í nefnd á vegum félagsmálaráðherra um málefni barna. „Í vetur höfum við reglulega fengið sláandi upplýsingar um málefni barna í samfélaginu en á Íslandi búa um 80.000 börn. Fleiri en 13.000 þeirra verða fyrir ofbeldi og það eru börn á Íslandi sem ekki búa við ásættanleg efnisleg gæði.“

Breið samstaða skilar árangri í stjórnarsamstarfi

Tveir aðrir þingmenn Norðausturkjördæmis voru meðal ræðumanna á eldhúsdeginum. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá Ólafsfirði gerði aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og nýja kjarasamninga að umtalsefni. Hún benti á lengingu fæðingarorlofs og aðgerðir á húsnæðismarkaði.

Bjarkey sagði marga hafa verið undrandi þegar núverandi ríkisstjórn hafi verið mynduð þar sem flokkarnir í henni hafi virst afar ólíkir. Það hafi hins vegar reynst farsæl ákvörðun. „Það kemur hins vegar betur og betur í ljós, einu og hálfu ári eftir að ríkisstjórnin tók til starfa, að breið samstaða skilar árangri. Stundum þarf að setjast aðeins yfir málin en niðurstaðan er oftast nær breið og þétt samstaða.“

Hún sagði að blikur hefðu verið á lofti í efnahagsmálum allt frá því ríkisstjórnin tók við völdum í árslok 2017. Samdráttur sé í kortunum og við því þurfi að bregðast. Íslenskt efnahagslíf sé þó að mörgu leyti undir það búið enda hafi bæði ríki og einstaklingar lagt fyrir.

„Í þetta skiptið er Ísland reiðubúið undir kólnun, enda hafa landsmenn aukið þjóðhagslegan sparnað, skuldir hafa verið greiddar niður og skynsamlegir kjarasamningar gerðir. Ég er því full bjartsýni á að við náum farsælli lendingu.“

Ekki tekið fagnandi móti öllum sem vilja leggja lið

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins frá Akureyri, sagði óviðunandi bið víða eftir aðstoð í heilbrigðiskerfinu og hjá greiningarstöðvum. Hún minnti jafnframt á að veita þyrfti heilbrigðisþjónustu um allt land.

„Við sjáum nú þegar að ekki gengur lengur að stefna öllum sem þurfa á slíkri þjónustu að halda á einn spítala við Hringbraut. Hugsa þarf upp á nýtt hvernig standa á sannarlega við það fyrirheit að allir eigi kost á heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.“

Hún gagnrýndi að ekki væri brugðist við vanda með að gefa meira svigrúm til einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu. „

„Þrátt fyrir fögur fyrirheit um að stytta eigi biðlista til liðskiptaaðgerða hefur lítið sem ekkert þokast í þeim efnum. Mikill fjöldi bíður enn og fjöldi fólks hefur stigið fram og lýst virkilega sárum aðstæðum. Á það fólk hefur ekki verið hlustað.

Það verður að segjast hér að ekki hafa allir efni á því að greiða fyrir slíka aðgerð úr eigin vasa og við skulum hafa það hugfast að allir íbúar landsins eiga jafnan rétt á að njóta þjónustu heilbrigðiskerfisins. Flestir þurfa einhvern tímann á ævinni á henni að halda svo það er merkileg staðreynd að staðan sé svona.
Enn er ósamið við sérgreinalækna sem svo sannarlega gætu létt undir með svo mörgum. Stjórnvöld hafa því miður tekið þann pól í hæðina að taka ekki fagnandi á móti öllum þeim aðilum sem hafa getu og vilja til að leggja lið. Það eitt og sér er umhugsunarefni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.